Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 11:56:45 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[11:56]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er stundum dálítið erfitt að átta sig á samhengi hlutanna þegar maður hlýðir á ræður hv. þingmanna hér úr ræðustól Alþingis (BJJ: Nú?) vegna þess að í upphafi þingfundar komu hér fulltrúar annars ríkisstjórnarflokksins, Samfylkingarinnar, eins og háheilagir menn og fóru yfir mikilvægi þess að opna yrði landið fyrir erlendum fjárfestum. Mikið var lagt upp úr mikilvægi þess að opna landið fyrir erlendum fjárfestingum í umræðum um hugsanleg kaup kínversks kaupsýslumanns á fasteigninni að Grímsstöðum á Fjöllum. Þar höfðu menn í Samfylkingunni uppi mikil áform.

Næsta mál sem var síðan tekið til umfjöllunar á þinginu er það frumvarp sem við ræðum nú. Það gengur út á að lögfesta gjaldeyrishöft út árið 2015. Þá veltir maður fyrir sér þessu samhengi sem ég vék að. Hvernig fer það saman að annar ríkisstjórnarflokkurinn lýsi yfir mikilvægi þess að opna landið fyrir erlendum fjárfestingum fyrir um hálftíma síðan en mæli síðan fyrir frumvarpi sem gengur í þveröfuga átt? Getur hv. þm. Birkir Jón Jónsson útskýrt fyrir mér hvernig þetta tvennt gengur upp og hvernig það samræmist hvort öðru, annars vegar áform Samfylkingarinnar um að selja Grímsstaði á Fjöllum og hins vegar að festa hér gjaldeyrishöft út árið 2015?

Ég hef lesið umsagnir Samtaka atvinnulífsins, Kauphallarinnar, Viðskiptaráðs Íslands og Landssamtaka lífeyrissjóða og allir eru sammála um að áhrif þessa frumvarps séu þau að það komi í veg fyrir fjárfestingar á Íslandi sem við þurfum svo (Forseti hringir.) mjög á að halda.