Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 12:43:12 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma með tvær spurningar. Í fyrsta lagi: Hverjar telur þingmaðurinn líkurnar á því að einhverjir aðilar láti reyna á rétt sinn varðandi það að fá að nota aflandskrónur hér á landi þar sem það þarf dómsúrskurð og dómsmál til þess að rjúfa þá þagnarskyldu sem Seðlabankinn hefur sett sér varðandi þær upplýsingar?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja þingmanninn út í 13. gr., n-lið, þar sem hin svokallaða 80% regla er. Í reglum um gjaldeyrismál og nú í ofangreindu frumvarpi segir m.a. að fyrirtæki sem hafa yfir 80% af tekjum og 80% af gjöldum sínum erlendis geti fengið undanþágu frá reglunum sem nú er verið að breyta í lög. Hver er skoðun þingmannsins á því og um hvaða fyrirtæki er hugsanlega að ræða sem þetta undanþáguákvæði nær yfir?

Fram kemur í umsögn Viðskiptaráðs Íslands að það sé hvati fyrir fyrirtæki til að breyta rekstri sínum og að þeir sem hafa hærri tekjur erlendis en 80% auki vægi erlends rekstrar á kostnað rekstrar hér á landi þar sem kostnaður viðkomandi fyrirtækis færist þá í auknum mæli út fyrir landsteinana vegna þessara reglna. Viðskiptaráð segir að með þessum reglum sé ekki aðeins verið að draga úr erlendri fjárfestingu hér á landi heldur beinlínis að hvetja fyrirtæki til að fara úr landi með rekstur sinn til að uppfylla þetta skilyrði til að fá undanþágu.