Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 16:30:19 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:30]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á lögum um gjaldeyrismál og tollalög, með síðari breytingum. Ég ætla að leyfa mér að gera hið sama og aðrir þingmenn hafa gert og vitna í samþykkt frá síðastliðnu vori. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Efnahags- og skattanefnd mun áður“ — og ég ítreka „áður“ — „en nefndarfundir og þingfundir hefjast í september óska eftir lagalegri og hagfræðilegri úttekt á frumvarpi ráðherra og einstökum greinum þess. Meta þarf hvort lögfesting þess veiti Seðlabanka Íslands nægilegan sveigjanleika til að bregðast skjótt við leka í gjaldeyrishöftum samhliða losun þeirra samkvæmt áætluninni. Þá þarf að meta nauðsyn slíkrar lagasetningar með tilliti til væntinga markaðarins um afnám hafta og trúverðugleika áætlunarinnar.“

Frú forseti. Ekkert af þessu hefur gengið eftir. Hvernig á maður þá að geta treyst því sem stendur í nefndaráliti meiri hlutans og þeim breytingartillögum sem fyrir liggja? Þar stendur, með leyfi forseta, og er ég þá að vitna í það sem lofað var hér að vori, sem sett var í greinargerð:

„Í 9. lið stendur að lagt sé til að efnahags- og viðskiptaráðherra gefi þinginu skýrslu árlega um framgang áætlunar um losun gjaldeyrishafta þegar ekki einu sinni hefur verið hægt að standa við þá greinargerð sem samþykkt var hér sem lögskýring með frumvarpi til laga frá því í haust.“

Það hlýtur líka að vekja furðu, frú forseti, að í dag kl. 15.25, fyrir um það bil klukkutíma, er haft eftir Má Guðmundssyni seðlabankastjóra, sem er þátttakandi í gerð þess frumvarps sem hér liggur fyrir, að brýnt sé að losna við gjaldeyrishöftin þar sem kostnaðurinn vegna þeirra vaxi með tímanum. Þetta kemur fram í erindi sem seðlabankastjóri flutti á fundi Félags löggiltra endurskoðenda um tilurð gjaldeyrishafta og áætlun um afnám þeirra. Þetta var í dag einhvern tímann um þrjúleytið.

Þá veltir maður fyrir sér: Er einhver tímasett áætlun til, í frumvarpinu eða frá Seðlabanka Íslands, um það hvernig við ætlum að afnema gjaldeyrishöftin? Ó, nei. Getur það verið vænlegt til árangurs að hafa ekki tímasetta áætlun um afnám gjaldeyrishafta þegar við erum svo með seðlabankastjóra sem segir í dag að brýnt sé að losa höftin? Hvaða viðmið ætla menn að hafa í slíkri áætlun? Liggja þau fyrir? Nei. Hvað liggur fyrir? Það liggur fyrir að eitthvert mat Seðlabanka Íslands á að ráða för; mat sem er frekar óljóst.

Frú forseti. Þetta mál er klúður. Það er með ólíkindum að ekki skuli staðið við gerða samninga sem koma fram sem greinargerð með frumvarpinu sem við samþykktum í vor. Það er með ólíkindum að meiri hluti ríkisstjórnarflokkanna skuli fara fram með þessum hætti. Þegar mál eru tekin út eða umræðu um þau er frestað vegna loforða, og sett í greinargerð, um annars konar vinnulag og vinnubrögð og ekki er við það staðið hvernig eigum við þá sem stöndum hér, erum hér í stjórnarandstöðu, að ganga almennt til samninga um lok mála á Alþingi? Ef við erum ekki þeirrar skoðunar að málið eigi að fara í gegn eins og það liggur fyrir erum við vænd dagsdaglega um málþóf.

Virðulegur forseti. Í þessu máli er mér persónulega, sem þingmanni Suðvesturkjördæmis, slétt sama um það að vera vænd um málþóf, þetta mál er meira og brýnna en svo að ekki eigi að ræða það.

Samhliða því að ræða um að festa gjaldeyrishöft í sessi, eða losun gjaldeyrishafta, þarf líka að taka til gagngerrar endurskoðunar peningamálastefnu Seðlabanka Íslands. Ég gagnrýndi það þegar breytingar á lögum um Seðlabankann voru gerðar síðast á Alþingi, og þá einkum og sér í lagi til að fækka bankastjórum, koma einhverjum frá og setja annan í staðinn, að menn hefðu ekki kjark til að taka á lögum um Seðlabanka í heild sinni. Ég legg enn fram þá gagnrýni hér.

Það er algjörlega ljóst að það er okkur Íslendingum nauðsyn að fólk, þjóðin, samfélagið allt, akademían, almenningur, þingmenn og allir aðrir, ræði um nýja peningamálastefnu. Þrátt fyrir þá sem eru hlynntir því að aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði fram haldið, er algjörlega ljóst að við tökum evruna ekki upp á næstu missirum. Þess vegna verður að taka peningamálastefnu Seðlabanka Íslands til gagngerrar endurskoðunar og hvert við viljum stefna þar til nýr gjaldmiðill verður hugsanlega tekinn upp.

Við ræðum hér dagsdaglega um að brýnt sé að koma af stað framkvæmdum í landinu, að brýnt sé að ríkisstjórnin, löggjafinn, búi til þannig umhverfi í skattamálum og öðru að atvinnulíf geti blómstrað og fjárfestingar farið af stað, jafnt innlendar sem erlendar.

Virðulegur forseti. Er það ekki algjör andstæða að ræða erlendar fjárfestingar annars vegar og gjaldeyrishöft hins vegar?

Það hlýtur að vekja furðu. Evrópusambandið hefur komið til tals, aðildarviðræður og fleira í þeim dúr. Flestir þeir sem hér hafa talað eru stjórnarandstæðingar sem fara hamförum gegn Evrópusambandinu og sjá ekkert gott í aðildarviðræðum í einu eða neinu sem að því lýtur. Sú sem hér stendur er og verður þeirrar skoðunar að ljúka eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið og gefa þjóðinni tækifæri til að gera út um þann samning og segja já eða nei þegar hann liggur fyrir. En mér er til efs að gjaldeyrishöftin, eins og þau eru hér og nú, eins og við ætlun að halda þeim áfram og framfylgja þeim til ársins 2015 — þar sem frumvarpið felur í sér margháttaðar hömlur á fjármagnsflutninga til og frá landinu og mismunar í mörgum tilvikum innlendum og erlendum aðilum, er spurning af minni hálfu hvort þetta fái staðist samninginn um Evrópska efnahagssvæðið um frjálst flæði fjármagns. Við vitum að frjálst flæði fjármagns skiptir máli fyrir fyrirtækin í landinu. Það hlýtur líka að vekja furðu sem stendur, að ég held, í 4. lið, að þegar menn velta fyrir sér 13. gr. e, þar sem er að finna víðtækt bann við fjárfestingum í fjármálagjörningum sem útgefnir eru í erlendum gjaldeyri, og einnig í g-lið, þar sem innlendum aðilum er óheimilt að framlengja lánveitingar eða lántökur ef samkomulagið hefur orðið um önnur kjör en upphaflega.

Maður veltir fyrir sér hverra hagur er hafður að leiðarljósi þegar þessar greinar tvær eru annars vegar. Ekki er það hagur fyrirtækjanna í landinu, það er nokkuð ljóst. Ekki er það hagur fólksins í landinu, einstaklinganna, sem hugsanlega vilja hafa það frelsi sem stjórnarskráin leyfir manni, að stunda þá atvinnu sem maður kýs. Þessi lög um gjaldeyrishöft ganga þvert gegn því.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni, frú forseti, hverra hagsmuna þeir sem leggja fram frumvarp af því tagi sem hér er eru að gæta. Getur verið að eitthvað sé til í því sem Páll Harðarson hefur sagt, að þar sem ýmis fyrirtæki séu í skjóli fjármálakerfisins komi höftin sér vel og þess vegna gangi hægar að leysa úr skuldavanda ýmissa fyrirtækja, vegna þess að þau eru í skjóli hafta og skjóli fjármálafyrirtækja eða kerfisins? Ef bankarnir vissu í dag að höftum yrði aflétt eigi síðar en 1. janúar 2012, gæti maður þá hugsanlega séð aðra forgangsröðun, skjótari afgreiðslu á skuldavanda fyrirtækjanna (Gripið fram í.) — getur verið að þetta hangi allt á einni og sömu spýtunni, frú forseti, að við völd sé ríkisstjórn sem ætlar sér að gjörbreyta samfélagsgerðinni, ætlar sér að gjörbreyta þessu þjóðfélagi í það að við sem það byggjum eigum að vera þakklát fyrir molana sem falla af borði ríkisins? (Gripið fram í.) Þetta alltumvefjandi miðstýringarríkisafl í einu og öllu er, frú forseti, að verða algjörlega óásættanlegt.

Það er líka ótrúlegt einkenni þessarar ríkisstjórnar, og meiri hlutans hér á löggjafarvaldinu, að brjóti menn lög og reglugerðir með einum eða öðrum hætti þá er einhvern veginn ekki hægt að nálgast þann verknað og taka á þeim verknaði, heldur þarf að þrengja að öllum öðrum samhliða.

Hér stunda einhverjir gjaldeyrisbrask. Það er algjörlega klárt. Það hefur alltaf verið þegar gjaldeyrishöft eru annars vegar, jafnt hér sem annars staðar. Hvers vegna getur löggjafinn þá ekki tekið á þeim sem það stunda í stað þess að þrengja að hinum venjulega borgara í einu og öllu hvað þetta varðar? Hvaða skilaboð eru það til samfélagsins og til einstaklinganna í þessu landi að þeirra hagur, þeirra athafnir, skuli heftur af því til eru þeir sem einhverra hluta vegna geta komist upp með að brjóta lög og reglur?

Meira að segja Seðlabanki Íslands hefur innan sinna vébanda eftirlit með kortanotkun Íslendinga — hugsanlega vegna þess að einhverjir einhvers staðar í kerfinu eru að færa á kortum sínum fjármuni á milli landa, takandi út einhvers staðar o.s.frv. (VigH: Ógeðfellt.) Já, kann að vera, en að það þýði eftirlit með kortanotkun Íslendinga almennt er með öllu óásættanlegt.

Það er líka annað sem tengist þessu og við sem hér sitjum á löggjafarvaldinu hefðum kannski átt að taka á fyrr og styðja þá löggjöfina um þá sem braska með gjaldeyri. En Seðlabanki Íslands hefur ekki löggjafarvaldið. Seðlabanki Íslands getur ekki ákveðið refsiaðgerðir. Það er kannski um það sem hluti af þessu snýst að binda í lög reglugerð Seðlabankans um gjaldeyrishöft og um gjaldeyrisviðskipti til þess að tryggja það í framtíðinni væntanlega, vegna þess að ekki verða lögin afturvirk, að Seðlabankinn geti beitt refsiaðgerðum.

Frú forseti. Í frumvarpinu eru einnig greinar sem er vel þess virði að skoða. Þau fyrirtæki sem eru í eigu ríkis og sveitarfélaga fá undanþágu frá þessu — við getum tekið orkugeirann, Orkuveitu Reykjavíkur, og fleiri slík dæmi, Landsvirkjun — en önnur fyrirtæki sem eru í sama geira, sem eru í eigu einkaaðila, þurfa að sæta allt öðru verklagi. Maður hlýtur líka að spyrja, frú forseti: Stenst það yfir höfuð? Ég held ekki.

Síðan er enn eitt í þessu, það er í 3. gr. sem á að verða 13. gr., það er n-liðurinn. Ég spyr hvort sú grein geti hugsanlega gert það að verkum að þau fyrirtæki á Íslandi sem eru með 70% eða 80% tekna sinna í erlendum gjaldeyri muni einfaldlega fara með höfuðstöðvar sínar úr landi. Þá spyr maður sig enn og aftur, frú forseti: Hagsmuna hverra er verið að gæta með gjaldeyrishöftunum? Hagsmuna hverra?

Að mínu mati er margt í frumvarpinu sem kallar á það, eins og einhver sagði hér áðan, að við frestum þessari umræðu, köllum frumvarpið aftur inn, stöndum við gefin loforð frá því vor, förum betur yfir verkefnið og spyrjum ágætan seðlabankastjóra, sem kl. hálffjögur í dag sagði að brýnt væri að losna við höftin — en við erum hér að fara að binda í lög til 2015 eða 2016 eitthvað sem hann og þeir í Seðlabankanum meðal annarra báðu um hér ekkert alls fyrir löngu: Í hvaða raunveruleikaþætti erum við stödd? (Gripið fram í: Ég veit það ekki.) (Gripið fram í: Við erum stödd í martröð.)

Frú forseti. Eitt af því sem er skemmtilegt við að vera í pólitík er að menn eru ekki alltaf sammála. Menn hafa fyrir sér markmið en leiðin að þeim er ólík. Ríkisstjórnin og sá meiri hluti löggjafarvaldsins sem fylgir henni hefur allt aðra skoðun á leiðum að markmiðum en ég sem sit í stjórnarandstöðu og er hægri maður en ekki vinstri maður. Ég vil frelsi. Ég vil ekki höft. Ég vil kjark. Ég vil ekki vonleysi. Ég vil að við stöndum við það sem við höfum lofað og klárum okkur af því að koma íslenskri þjóð út úr þeim vanda sem við blasir. Við gerum það ekki með höftum. Ég segi eins og góður maður sagði: Það hefur aldrei neinn talað sig út úr kreppu.