Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 17:02:02 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og alþjóð veit gegnir hv. þingmaður líka mikilvægu starfi á vettvangi Alþingis, er einn af varaforsetum þingsins, ekki svo að skilja að hv. þingmaður sé það hér og nú heldur starfar sem þingmaður þegar hún situr ekki í sæti hæstv. forseta. Mig langar samt að spyrja hv. þingmann, sem hefur á sínum tíma sem þingmaður reynt að gæta að virðingu þingsins, hvort þessi umræða sé ekki farin að minna okkur ansi óþyrmilega á fræga umræðu um svokallað Icesave-mál sem stóð hér yfir í rúm tvö ár þar sem við fórum ítrekað yfir að ekki hefði verið staðið við skriflega samninga milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Nú stefnir allt í að við þurfum að þrátta um það fram á kvöld hvort hér hafi samkomulag verið svikið þótt það standi í greinargerð með breytingartillögu sem lögð var fram í vor. Ég spyr hvort hv. (Forseti hringir.) þingmaður taki ekki undir þá kröfu að við frestum þessum fundi (Forseti hringir.) og leyfum efnahags- og skattanefnd að koma saman (Forseti hringir.) og ræða þessi mál í stað þess að þrátta hér (Forseti hringir.) fram eftir öllu kvöldi.