Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 17:26:14 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:26]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Já, við ræðum enn gjaldeyrishöft og mig langar eilítið að blanda mér inn í þá umræðu. Gjaldeyrishöftunum var komið á í kjölfar neyðarráðstafana vegna bankahrunsins árið 2008. Útfærslan fólst í því að innleiða tímabundnar en jafnframt víðtækar hömlur á fjármagnshreyfingar til og frá landinu með það að markmiði að tryggja stöðugleika krónunnar. Mikil hætta var yfirvofandi á því að mikið fjármagn mundi flæða úr íslenska hagkerfinu með skelfilegum afleiðingum fyrir land og þjóð, fyrirtæki og heimili.

Almennt bar mönnum saman um það á sínum tíma að höftin hafi verið nauðsynleg. Þau voru sett við erfiðar aðstæður sem menn hvorki þekktu áður né höfðu upplifað og til að hafa stjórn á stöðu mála voru gjaldeyrishöftin innleidd. Þau voru innleidd á þann hátt að Seðlabankanum voru gefnar rúmar heimildir til þess að kveða nánar á um það hvernig þau ættu að vera, standa og virka. Sem sagt, löggjafinn lagði það í hendur Seðlabankans að útfæra reglurnar, móta reglur um gjaldeyrishöftin.

Að mati Seðlabankans, sem hefur haldið utan um gjaldeyrishöftin og útfærslu þeirra, viðhald, eftirlit o.s.frv., er nú komið að áríðandi tímapunkti og að skjóta þurfi styrkari stoðum undir framkvæmdina.

Í efnahags- og skattanefnd hefur komið skýrt fram í máli seðlabankastjóra að lögfesting reglna sé ekki ætlað að tefja áætlun um afnám eða losun haftanna, en að teknu tilliti til trúverðugleika og alþjóðlegra skuldbindinga sé rétt að ætla verkefninu um losun hafta raunsæjan tímaramma. Það er því mat Seðlabankans að besta leiðin til að geta lagt fram raunhæfa áætlun um afnám hafta, til að það geti orðið að veruleika í íslenska hagkerfinu, sé að setja lög um gjaldeyrishöftin og áætla þeim rúman tímaramma.

Gert er ráð fyrir að heimildin gildi til loka ársins 2015 en það hlýtur að vera markmið okkar allra sem hér störfum að gjaldeyrisviðskipti leiði ekki til alvarlegs efnahagshruns á nýjan leik. Stíga þarf varlega til jarðar enda óstöðugleiki í gengi krónunnar stórhættulegur fyrir heimili og fyrirtæki í landinu. Því má segja að gjaldeyrishöft séu birtingarmynd þeirrar stöðu sem við erum í. Segja má að lögfesting reglnanna sé liður í áætlun um losun hafta og geti rennt frekari stoðum undir þau viðskipti sem þurfa að eiga sér stað til að við getum losað höftin. Þannig hefur það komið skýrt fram af hálfu stjórnarmeirihlutans, af hálfu þeirra sem bera mál þetta fram, að höftin eigi ekki að vara að eilífu. Engan langar til þess að þau vari hér áfram en besta leiðin til að eiga von á því að geta losað þau í náinni framtíð er að lögfesta reglur sem um þau hafa verið. Það er liður í losun haftanna. Þetta er mat okkar bestu sérfræðinga. Seðlabankinn hefur sagt: Við óskum eftir þessari nálgun á verkefnið, með því náum við bestri hjálp og aðstoð við að losa höftin. Svo mæla sérfræðingarnir.

Mér finnst umræðan hafa svolítið mótast af þeirri staðreynd að verið er að skjóta sendiboðann. Því miður erum við sum hér inni í þeirri stöðu að takast á við viðamiklar björgunaraðgerðir vegna efnahagshrunsins. Við höfum þurft að takast á við flókin og erfið verkefni og ekki kannski oft vinsæl, svo sem að hækka skatta eða skera niður þjónustu og ég vil segja að mæta inn í þennan sal og mæla fyrir því að gjaldeyrishöft verði lögfest og þau látin gilda til ársins 2015.

Ekki er ég að vorkenna þeim sem að þessu standa því að við teljum, þeir sem standa á bak við álit meiri hluta nefndarinnar, að þetta sé nauðsynlegur liður í því að geta losað höftin. Höft og haftastefna er ekki sú pólitík sem mig langar að berjast fyrir, þó svo að það hafi komið sterklega fram í umræðum fyrr í dag að sumir stjórnmálamenn aðhyllist höft og haftastefnu en ég er ekki þeirrar skoðunar. Þess vegna er það að sjálfsögðu þungt að þurfa að koma fram með þetta mál. En eins og ég er að reyna að benda á með skýrum og einföldum hætti er það mat sérfræðinga, sem eru að reyna að losa höftin, að umrædd leið sé besta leiðin til þess. Á það verðum við að treysta. Seðlabanki Íslands leggur fram þá ósk að svona verði farið með málið. Þannig má segja að höftin séu birtingarmynd þeirrar stöðu sem við erum í.

Að mínu viti markaði hrunið endalok tilraunarinnar með íslensku krónuna. Ljóst er að við höfum tvo valkosti ef við viljum búa við hina íslensku krónu. Annaðhvort að hafa krónu í höftum til lengri tíma litið eða setja krónuna á markað þannig að verð hennar ráðist af framboði og eftirspurn. Það reyndi hin íslenska þjóð árin 2003–2009 með skelfilegum afleiðingum, sífelldri styrkingu með tjóni fyrir útflutningsgreinar og hingað flæddi inn fjármagn vegna þess að fólk flúði hina íslensku vaxtabyrði. Ef við ætlum að búa áfram við gjaldeyrishöft þurfum við að horfa fram á háa innlenda vexti og töluvert flökt í gengi ef krónan verður laus. (Gripið fram í.) Einnig er ljóst að ef gjaldeyrishöft verða hér um alla framtíð eru forsendur fyrir áframhaldandi samstarfi á vettvangi EES brostnar, enda er þá gengið á fjárfrelsið, þ.e. frjálst aðgengi fjármagns á milli markaða.

Þess vegna er það að sjálfsögðu ekki björt og skemmtileg framtíðarsýn að horfa fram á höft. En eins og ég rakti áðan er það birtingarmynd þeirrar stöðu sem við erum í með okkar krónu. Þá hlýtur maður að velta fyrir sér: Hver er valkosturinn, hver er framtíðarsýnin, hvert vilja menn fara, hvert vilja menn stefna? Eru stjórnmálamenn á Alþingi þeirrar skoðunar að við eigum að setja krónuna aftur á hinn almenna markað þar sem verð hennar ræðst af framboði og eftirspurn? Eru menn fylgjandi þeirri línu? Það væri áhugavert að heyra hver valkostur þeirra er sem hingað hafa komið og lýst yfir þeirri skoðun að gjaldeyrishöft séu hið versta mál. Hvernig ber að haga málum myntarinnar áfram? Erum við að tala um krónu í höftum um langa framtíð eða ætlum við að setja hana á markað?

Sá stjórnmálaflokkur sem ég er í og heitir Samfylking er þeirrar skoðunar að við aðild að ESB sé komin raunhæf lausn á myntmálum þjóðarinnar til lengri tíma litið. (Gripið fram í.) Ja, bíddu við, hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir, því að ljóst má vera að ef Ísland segir já við þeim aðildarsamningi sem mun birtast þjóðinni, vonandi ekki innan allt of langs tíma, er ekkert sem hindrar það að Ísland geti gengið í myntsamstarfið ERM II. (Gripið fram í: Það er ekkert sem réttlætir það.) Hæstv. forseti, mér þætti vænt um að fá að tala en við heyrum núna í öðrum þingmönnum. Þeir geta komið í andsvör við mig eða komið hingað síðar að tala.

Mér þætti vænt um að fá að halda áfram með ræðu mína og vitna í Gylfa Zoëga prófessor sem segir í grein sinni „Hugleiðingar um peningamálastefnu“ sem birtist í tímaritinu Tímarit um viðskipti og efnahagsmál vorið 2010, en þar segir, með leyfi forseta:

„Við inngöngu í ERM II lýsir viðkomandi land því yfir að það festi gengi gjaldmiðils síns við evru á ákveðnu föstu gengi. Þó er möguleiki á að breyta því gengi ef samkomulag næst um það á milli viðkomandi ríkis og Seðlabanka Evrópu. Þá er ákvarðað fyrir fram hvað gengi gjaldmiðlanna má sveiflast mikið og er yfirleitt miðað við +/–15% en skilyrðin má þrengja með samkomulagi beggja aðila. Þetta fyrir fram ákveðna svigrúm setur um leið þá ábyrgð á herðar seðlabanka viðkomandi lands og Seðlabanka Evrópu að grípa inn í ef gengi gjaldmiðilsins sveiflast út fyrir þessi mörk. Sé svo er viðkomandi seðlabönkum skylt að grípa inn í til að styrkja eða veikja gengi viðkomandi gjaldmiðils gagnvart evru með viðeigandi hætti. Slík inngrip má þó takmarka ef þau vinna gegn verðstöðugleika, sem er helsta markmið Seðlabanka Evrópu.“

Gylfi heldur áfram:

„Evrópska gjaldmiðilssamstarfið ERM II er ferli sem er hugsað þannig að það auðveldi nýjum aðildarríkjum ESB að taka upp evruna án þess að það raski evrópska myntsamstarfinu um of, jafnframt því sem viðkomandi land nái að aðlagast fyrirkomulagi fasts gengis. Ef Ísland gengi í ESB er ekkert sem hindrar það að ganga strax í ERM II og það mundi í raun þýða að landið þyrfti að fylgja fastgengisstefnu gagnvart evrunni.“

Það má ljóst vera af þessum orðum Gylfa Zoëga að um leið og þjóðin er búin að segja já, ef henni hugnast svo að segja já við aðildarsamningi ESB, getur hún um leið gengið í ERM II og notið skjóls (Gripið fram í.) af samstarfi Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu. Það kemur hér fram í ritinu, í grein Gylfa Zoëga, og með fullri virðingu fyrir þeim þingmönnum sem hér eru inni tel ég að þekking Gylfa Zoëga á hagfræði sé þó nokkur, ef ekki meira en inngrip, og ég tel að vert sé að hafa álit hans í huga. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti vill biðja hv. þingmenn að virða ósk þingmannsins um að fá að ljúka sinni ræðu.)

Þakka þér, forseti.

Þetta er sá valkostur sem ég er fylgjandi. Þetta er sá valkostur sem ég tel vera raunhæfan í þeirri vandasömu stöðu sem við erum í. Eins og ég rakti áðan í ræðu minni eru gjaldeyrishöft birtingarmynd þeirrar stöðu sem við erum í með mynt okkar. Eini raunhæfi kosturinn sem við höfum til lengri tíma litið er að skipta út þeirri mynt fyrir aðra og það er ekki svo langt í að við getum notið skjóls af þeim gengisstöðugleika sem felst í evru segi þjóðin já við ESB.

Það væri hins vegar áhugavert að vita hver skoðun og stefna annarra flokka er í þessum málaflokki. Hvaða skoðun hafa framsóknarmenn á því hvernig haga beri myntmálum til lengri tíma litið, innan hafta eða utan? Hvaða skoðun hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins á því hvaða stefnu ber að marka? Það væri áhugavert að heyra í fulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem hafa kvatt sér hljóðs í þessari umræðu: Hver er leiðin til lengri tíma litið? Hvaða stefnu ætla þingmenn Sjálfstæðisflokksins að fylgja?

Ég man til þess að í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar 2009 birtust heilsíðuauglýsingar með formanni flokksins þar sem sagði í fyrirsögn: Trúverðug leið að upptöku evru.

Ég prentaði þessa auglýsingu út og hef hana hér í A5 riti fyrir þingmenn, ég get jafnvel skilið hana eftir í púltinu þannig að menn geti þá glöggvað sig á henni.

Þar segir, og vitnað er til orða formannsins, með leyfi frú forseta:

„Tökum upp evru í samstarfi við AGS. Sjálfstæðisflokkurinn telur að leita eigi eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að íslensk stjórnvöld og IMF (AGS) vinni að því í sameiningu að í lok efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins geti Íslendingar tekið upp evru sem gjaldmiðil í sátt og samvinnu við Evrópusambandið.“

Undir þetta ritar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.)

Þetta voru sem sagt skilaboð Sjálfstæðisflokksins þegar farið var síðast í kosningar. Þá fóru menn inn í fyrirtækin í Garðabænum eða heimilin í Hafnarfirði og sögðu: Okkar leið er sú að við teljum að taka beri upp evru í samstarfi við AGS.

Hvar er stefna Sjálfstæðisflokksins í dag? Hafa menn horfið af leið? Voru menn að nálgast kjósendur á fölskum forsendum? (Gripið fram í.) Hvert fór Sjálfstæðisflokkurinn? Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að koma með þessa stefnu aftur fyrir næstu kosningar? Hver er leið Sjálfstæðisflokksins út úr þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í dag? Hvert viljið þið fara, kæru þingmenn Sjálfstæðisflokksins? Það þætti mér vænt um að vita, því að ekki hefur það komið fram í þessum umræðum hvernig þið hyggist leysa þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir. (Gripið fram í.) (RR: Það er rangt, hv. þingmaður.)

Hér búum við við gjaldeyrishöft. Ég hef farið ofan í það ítarlega í ræðu minni að þau eru birtingarmynd þeirrar stöðu sem við erum í gagnvart íslensku krónunni. Þeir sem við treystum til að losa okkur undan oki haftanna hafa sagt: Vinsamlegast lögfestið þessar reglur og gefið okkur rúman tímaramma til þess að fara í afnám hafta.

Hvað ætlum við svo að gera þegar höftin eru frá? Það er aðeins einn stjórnmálaflokkur í þessu húsi sem hefur lagt fram trúverðuga leið til að leysa það vandamál. (Gripið fram í.) Aðrir stjórnmálaflokkar hafa ekki komið fram með þá lausn. (Gripið fram í: Framsóknarflokkurinn.) Þeir komu hins vegar með ákveðna lausn í kosningunum 2009 og nálguðust kjósendur sína með þeim hætti en það stendur hins vegar ekki steinn yfir steini í þeim kosningaloforðum sem þá komu fram. (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn nálgaðist kjósendur sína á fölskum forsendum.