Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 17:47:37 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:47]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu minni ber Seðlabankinn ábyrgð á afnámi hafta. Hann hefur kynnt þá áætlun sem hann leggur til grundvallar til að losa megi hér höft með sem skjótustum hætti. Hann varð fyrir eilitlu áfalli með það vegna óstöðugleika á erlendum fjármálamörkuðum og það er ljóst að sú áætlun mun að einhverju leyti dragast á langinn. Seðlabankinn hefur hins vegar það hlutverk samkvæmt lögum að bera ábyrgð á stöðugleika og verðbólgu. Þau sjónarmið koma þá greinilega til grundvallar í mati hans á því að þessi leið sé skynsamlegust. Aðrir umsagnaraðilar sem komu fram fyrir nefndina höfðu reyndar skiptar skoðanir á því hvernig haga bæri málum. Þeir hafa ekki sama ábyrgðarhlutverk og Seðlabankinn í þessum efnum, bera ekki ábyrgð á verðbólgu eða stöðugleika, og virðast því horfa öðruvísi á málið.

Ég skal víkja að samkomulaginu í seinna svari.