Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 17:56:00 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:56]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafna alfarið þeim alhæfingum sem fram koma í máli hv. 7. þm. Suðvesturkjördæmis, Magnúsar Orra Schrams, um að ég sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi einhvern tímann farið fram á fölskum forsendum og logið að kjósendum og vísa ég því til föðurhúsanna.

Ég vil hins vegar spyrja ágætan þingmann varðandi þá áætlun sem hér liggur fyrir um afnám gjaldeyrishafta. Á bls. 22 í áætlun Seðlabankans stendur að áætlunin sem lögð er fram sé ólík hinni fyrri að því leyti að hún snúist að mestu um skipulegar aðgerðir til þess að koma óstöðugum krónueigendum í hendur langtímafjárfesta snemma í ferlinu. Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji að í þeim útboðum sem fram hafa farið hafi fengist nægar upplýsingar þar sem aðeins var rætt við þá sem eiga aflandskrónur en ekki aðra krónueigendur.