Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 18:06:22 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það athyglisverð niðurstaða hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að gjaldeyrishöftin brjóti í bága við EES-samninginn. Ég held reyndar að flestir séu þeirrar skoðunar. Mér finnst það athyglisvert í ljósi þess að ég lagði til í nóvember 2008 að við tækjum upp skatt á útstreymi fjármagns sem form af gjaldeyrishöftum. Mikið var hlegið að þessari tillögu á þeim tíma, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom hér inn og áttaði sig sem betur fer á því að á einhvern hátt þyrfti að stoppa gengishrap krónunnar og setti í stað skatts á útstreymið gjaldeyrishöft í formi boða og banna. Þetta eru þau gjaldeyrishöft sem nú á að herða með því frumvarpi sem liggur fyrir.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé hennar skoðun að fyrirliggjandi frumvarp, um hert gjaldeyrishöft, muni valda okkur erfiðleikum með ESB-umsóknina, sem er í ákveðnu ferli. Ég undrast það reyndar að Samfylkingin skuli ekki hafa áhyggjur af því að herðing á gjaldeyrishöftunum dragi á einhvern hátt úr hraðanum á umsóknarferlinu sem við erum nú þegar í.

Eftir því sem ég skoða betur sögu þessara gjaldeyrishafta og þeirra aðgerða sem farið hefur verið í eftir hrun verð ég alltaf meira og meira undrandi á því að við höfum ekki leitað til Norðurlandanna eftir aðstoð við að leysa gjaldmiðilskreppuna. Nú veit ég að formaður Framsóknarflokksins fór til Noregs til að leita eftir láni fyrir Icesave, eða fyrir skuldbindingum ríkissjóðs.