Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 18:17:28 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég hef sama skilning og hv. þm. Birgir Ármannsson varðandi innihald ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams. Það má eiginlega draga þá tæplega 20 mínútna ræðu saman í eina setningu, eins og ég sagði áðan. Skilaboðin voru: Áfram króna í höftum eða evru. Það var alveg skýrt hvert þingmaðurinn var að fara. Það er líka alveg skýrt hvert hin einangraða Samfylking í íslensku samfélagi er að fara. Það vita það allir að Samfylkingin dregur þennan Evrópuvagn þó að 65% landsmanna séu á móti því að við förum þangað inn. Meira að segja er kominn meiri hluti hjá þjóðinni fyrir því að draga umsóknina til baka, en Samfylkingin heldur áfram. Nú kristallast áhugi Samfylkingarinnar á að komast í samfélag þjóða í Evrópu í því að vilja ekki gera neitt í gjaldmiðilsmálum okkar annað en að setja krónuna í höft til ársins 2016. (MÁ: Hvað viljið þið gera?) Hvers vegna er Samfylkingin ekki, (Gripið fram í.) hv. þm. Mörður Árnason, að vinna að því sem aðili að ríkisstjórninni að koma okkur á þann stað t.d. (Gripið fram í.) að uppfylla Maastricht-skilyrðin? (Gripið fram í.) Ef Maastricht-skilyrðin eru uppfyllt er það fyrst og fremst gæðavottorð á góðri efnahagsstjórn þjóðar. Það er ekki verið að vinna að því. (Gripið fram í.) Hér er endalaust verið að auka skuldahalla ríkissjóðs. Vextirnir eru langt fyrir ofan Maastricht-skilyrðin.

Við höfum tillögur, hv. þm. Mörður Árnason. Það er líka málflutningur Samfylkingarinnar að skjóta alltaf úr salnum: Hvað ætlið þið að gera? Samfylkingin er í ríkisstjórn og er búin að vera í ríkisstjórn í fjögur ár. Þetta er Evrópuleiðangurinn. Þetta er leiðin sem þeir ætla að fara. Það á að binda íslenska krónu í gjaldeyrishöftum þó að forstjóri Kauphallarinnar segi að það sé hægt að aflétta höftunum á sex til níu mánuðum. Til þess er ekki pólitískur vilji hjá Samfylkingunni og Vinstri grænir hlaupa á eftir og hlýða og taka þátt í þessu. (Gripið fram í.)

Þetta frumvarp er skandall. Það er ótrúlegt að það skuli vera hér til umræðu því að við höfum margoft bent á það í umræðunni í dag að lagatæknilega er ekki í lagi að hafa það hér vegna formgallans sem er á því varðandi samkomulagið sem gert var.