Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 18:39:48 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að taka undir áhyggjur hv. þm. Péturs Blöndals um að við séum að festast í menningu gjaldeyrishafta og að samfélag okkar sé að breytast í samfélag sem við höfðum hérna fyrir u.þ.b. 80 árum, eða 1930. Frú forseti. Ég átti afa sem var þá ungur, hann var fæddur 1911. Hann hafði áhuga á að fara í verkfræðinám til Svíþjóðar á þessum tíma og átti til þess pening, hafði unnið sem rafvirki í Reykjavík og safnaði peningum til að fjármagna nám sitt. Hann fékk ekki leyfi til að skipta þessum peningum yfir í sænskar krónur þannig að tækifæri hans til að öðlast verkfræðimenntun var eiginlega tekið af honum. Hann tilheyrði heldur ekki stjórnmálaflokki sem var við völd og réði því í raun og veru hverjir fengu að skipta íslenskum krónum yfir í annan gjaldmiðil.

Frú forseti. Ég á son sem er á svipuðum aldri og afi minn var árið 1930, hann er um tvítugt. Sonur minn hefur áhuga á að fara til Kanada í nám. Nú hef ég áhyggjur af því að þessi gjaldeyrishöft muni koma í veg fyrir að hann geti eða hafi efni á því að fara til náms. Þá er sagan að endurtaka sig aftur, fjölskyldusaga hans, harmleikurinn sem gerðist hérna 1930 er sem sagt að endurtaka sig núna 2012 þegar hann hefur lokið sínu stúdentsprófi.