Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 19:03:48 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[19:03]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þm. Birgir Ármannsson deilum þeirri skoðun að hægt hefði verið að halda betur á málum þau tvö og hálft ár sem ríkisstjórnin hefur bráðum setið, tvö og hálft ár rúmlega ef við teljum minnihlutatímabilið með. Skilaboðin sem ríkisstjórnin hefur því miður verið að senda til atvinnulífsins, hvort sem um innlenda aðila eða áhugasama erlenda fjárfesta er að ræða, eru á þann veg að hér sé dálítið varasamt að vera, hér sé ótryggt ástand og pólitískur óstöðugleiki.

Við erum oft og tíðum, og ég hef nú rætt það í öðrum málum, að ræða hér mál sem mikill ágreiningur er um og eru kannski stór. Það stór að nauðsynlegt væri, til að þau skapi þjóðhagslega ró og hafi veruleg áhrif, að um þau ríki nokkur sátt. Það er kannski óeðlilegt að taka svona mikla pólitíska karpumræðu um nánast hvaða mál sem er, það er miklu vænlegra til árangurs að menn nái samkomulagi í sátt og samlyndi.

Í ljósi þess að ekki hefur verið farið í þá óháðu úttekt sem sátt náðist um í vor — hv. þingmaður vék að því í upphafi ræðu sinnar, reyndar aðeins undir lokin líka — er svolítið sérkennilegt að við skulum eftir sem áður standa hér dag eftir dag og ræða þetta mál. Ég velti því fyrir mér hvort það sé hreinlega ekki útópískt að við séum að karpa hér um mál sem við ættum öll að vera sammála um að fresta. Við ættum öll að vera sammála um að gera umrædda úttekt áður en við förum út í málefnalega umræðu um hvort þetta frumvarp sé skynsamlegt eða ekki. Það vantar þessi álit, óháðu álit, bæði lögfræðileg og hagfræðileg, og eins það hvort Seðlabankinn hafi þau tæki og tól sem til þarf.

Ég vil því spyrja þingmanninn, svona í lokaspurningu, hvort það sé ekki hinn eðlilegasti máti að við hreinlega tökum þetta mál af dagskrá (Forseti hringir.) og finnum einhverja sameiginlega lausn hér í þinginu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)