Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 20:13:09 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir ræðu hennar. Hún er ein af þeim þingmönnum sem hafa bent á lausnir á gjaldeyrishaftavandanum og felast þær í skattlagningu á útstreymi gjaldeyris. Hún fór yfir það í ræðu sinni að þetta hefði verið leið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hugnaðist ekki, hann hafi raunverulega lagst gegn henni þegar samningurinn við hann var í gildi og sjóðurinn var hér á landi. Nú er sjóðurinn horfinn á brott og þess vegna langar mig til að varpa þeirri spurningu til þingmannsins hvers vegna hafi ekki verið tekið jákvæðar í þá lausn sem hún hefur lagt til. Hún þekkir hagfræðina afar vel og vísar til reynslu annarra þjóða í skattlagningu útstreymis á gjaldeyri, eins og þessum jöklabréfum.

Einnig vil ég spyrja hvort ekki sé hægt að fara blandaða leið með afnám haftanna í skrefum. Forstjóri Kauphallarinnar hefur talað um sex til níu mánuði. Hver er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin leggur til þá leið að binda (Forseti hringir.) gjaldeyrishöft til 2016?