Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 20:15:40 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar þá að velta upp þeirri spurningu hver sé munurinn á því að hafa gjaldeyrishöft eða skatt á útstreymi. Samkvæmt þessu er það sami hluturinn. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur það markmið að hafa frjálst flæði fjármagns á milli landa en alls ekki er um slíkt að ræða þegar gjaldeyrishöft eru í gildi. Flæðið væri jafnvel frjálsara við skattlagningu því þá hefðu þessir aðilar val um að yfirgefa myntsvæði okkar eða vera áfram þar til annaðhvort skattur er lækkaður eða umhverfi breytist.

Mig langar líka til að spyrja hv. þm. Lilju Mósesdóttur um það að ekki virðist vera mikill þrýstingur á jöklabréfum miðað við hvað síðara útboð Seðlabankans fór raunverulega illa. Lagt var af stað með ákveðnar forsendur og þær fóru út um þúfur. Seðlabankastjóri lét síðar hafa eftir sér að þetta hefði ekki komið honum á óvart. Þess vegna spyr ég: Hvers vegna var þá farin þessi leið? Þetta eru spurningar sem mig langar til að fá svör við.