Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 20:22:32 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er ein spurning sem mig langar að bera undir hv. þingmann. Hvað finnst henni um það þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra talar úr þessum ræðustól og hvar og hvenær sem er um að krónan sé ónýtur gjaldmiðill? Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sjái það fyrir sér að meðan sá aðili sem fer fyrir og ber ábyrgð á efnahagsstjórn landsins talar með þessum hætti hafi einhver annar trú á gjaldmiðlinum okkar, fyrst við höfum það ekki sjálf. Hvaða áhrif telur hún það hafa á að komast út úr gjaldeyrishöftunum?

Síðan tek ég undir með hv. þingmanni, það er mjög mikilvægt að búa til nýja peningamálastefnu. Stýrivaxtahækkanir sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni voru reyndar líka fyrir hrun og voru stýrivextir komnir mjög hátt til að reyna að draga úr þenslunni. Finnst henni stýrivextirnir virka eðlilega þegar við erum með verðtrygginguna?