Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 20:27:34 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[20:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Herra forseti. Ég hef ræðu mína í kvöld á því að undrast það að við ræðum á öðrum degi gjaldeyrishöft og breytingar á gjaldeyrismálum og tollalögum. Í salnum er einn stjórnarliði. Í dag, þann tíma sem ég hef setið hér og reyndar líka í gær, hefur verið verulegur skortur á stjórnarliðum til að verja þessa leið. Ég held að það sé rétt hjá mér að enginn þingmaður Vinstri grænna hefur tekið til máls til að útskýra af hverju við þurfum að fara þessa leið og mér finnst það eiginlega ámælisvert að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu eða nokkur sá sem undirritað hefur nefndarálit meiri hlutans.

Engu að síður heldur umræðan áfram. Þetta er eins og með nokkur önnur mál sem verið hafa til umfjöllunar í þingsölum, stjórnarliðið hendir bara einhverju fram. Menn virðast ekki hafa mikla sannfæringu fyrir því að þetta sé rétta leiðin og vilja þar af leiðandi ekki vera bendlaðir við málið eða að þurfa að verja frumvarpið og nefndarálitið sem liggja hér frammi. Málið var fyrst rætt í lok vorþingsins og er umræðu haldið áfram núna. En hér stöndum við, stjórnarandstæðingar, og biðlum til stjórnarliðanna um að hlusta á það sem við höfum fram að færa. Við vitum ekki hvort það virkar. Við fáum engin viðbrögð. Við leitum eftir því að í stórum málum eins og þessu sé breiðari samstaða um aðgerðir, að fleiri trúi því og geti staðið við það að þetta sé hin rétta leið fyrir okkur. En auðvitað er það umdeilanlegt eins og margt annað.

Komið hefur fram í fjölmörgum yfirlýsingum og ræðum frá hæstv. forsætisráðherra — það kom ágætlega fram í máli hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrr í kvöld — á fleiri en einum vettvangi að það séu svo mörg batamerki á efnahagslífinu og atvinnulífinu að það ættu í raun að vera öll skilyrði fyrir því að afnema gjaldeyrishöftin. Í stað þess stöndum við frammi fyrir frumvarpi til laga sem á að festa þau í sessi til 1. janúar 2016 og herða þau. Það er ekkert annað en tvískinnungur. Hæstv. forsætisráðherra reynir búa til stöðu með yfirlýsingum sínum sem ekki er til, hún teiknar upp einhvers konar mynd af efnahagslífinu sem er ekkert annað en froða en treystir henni síðan ekki betur en svo að hún setur upp belti og axlabönd í efnahagsmálum og segir að það þurfi að viðhalda gjaldeyrishöftunum og herða þau til að ekki fari illa. Það hljómar síðan mjög sérkennilega að heyra hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og reyndar ýmsa aðra ráðherra og þingmenn, einkum Samfylkingarinnar, tala niður krónuna. Þeir sleppa engu tækifæri til að gera það, eins og fram hefur komið í ýmsum ræðum og fjölmiðlum. Það er ekki líklegt til árangurs ef menn ætla að búa til þær aðstæður að hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin, ef menn róa á sama tíma að því öllum árum að veikja krónuna og tiltrú manna á hana hér innan lands og þeir veikja líka trú erlendra fjárfesta á efnahagsástandinu í landinu.

Margir líta þannig á krónuna að hún sé slæm og bera hana saman við erlenda gjaldmiðla eins og dönsku krónuna, dollara og pund og þýska markið, sem er reyndar svolítið sérkennilegt því að ef við tökum 100 ára sögu þýska marksins áður en það breyttist í evru er margt áhugavert sem hægt er að skoða þar. Sumt er kannski til eftirbreytni fyrir okkur í því skyni að byggja upp efnahagslífið eins og Þjóðverjar gerðu eftir síðustu dýfu sína fyrir margt löngu.

Til eru fleiri mælikvarðar á að meta styrk gjaldmiðils sem gegna því hlutverki að auka viðskipti og auðvelda þau manna í millum. Í því sambandi má nefna þau lífskjör sem þjóðin býr við. Ef við horfum 100 ár aftur í tímann á dönsku krónuna var íslenska þjóðin ein sú fátækasta í Evrópu. Nú, 100 árum síðar, er krónan kannski dálítið mikið minna virði núna en íslenska þjóðin er ein sú ríkasta í Evrópu og í heiminum. Þó að við teljum að ýmislegt bjáti á í augnablikinu vitum við líka að tækifærin og þær auðlindir sem við búum við í landinu eru slík að við hljótum að teljast auðug þjóð. Það er m.a. vegna krónunnar.

Ef við tölum um gjaldmiðla þá hefur verið talsverð umræða um hvort eina lausnin sé sú að taka upp annan gjaldmiðil. Evran kom fyrst upp í hugann á vormánuðum 2009 og kannski eftir hrunið 2008 þó að einnig væru nefndir til aðrir gjaldmiðlar eins og dollari, norsk og sænsk króna o.s.frv. Nú eru allt aðrir tímar en þegar menn tóku ákvarðanir um að sækja um aðild að Evrópusambandinu með minnsta mögulega meiri hluta í þinginu og talsverðum átökum. Nú eru allt aðrar aðstæður hér innan lands en ekki síður á meginlandi Evrópu. Ef við ræðum til hvers gjaldmiðlar eru og hvernig þeir eiga að endurspegla efnahagslíf hverrar þjóðar eða þess svæðis sem gjaldmiðillinn þjónar má leiða að því sterk rök að evran sé alls ekki sá gjaldmiðill sem hentar okkur best þar sem hún er bundin við þýska hagkerfið og hagkerfi okkar er á margan hátt talsvert öðruvísi en hið þýska. Hagkerfi okkar er miklu líkara til að mynda því norska, því færeyska eða því grænlenska og jafnvel því kanadíska. Ef upp kemur sú staða að við finnum olíu verður efnahagslíf okkar enn líkara norska kerfinu en það er í dag. Við byggjum afkomu okkar að stóru leyti á nýtingu náttúruauðlinda eins og þær þjóðir sem ég nefndi áður.

Ég hef nefnt áður í þessum ræðustól að ef menn ætluðu að fara að endurskipuleggja alla gjaldmiðla heimsins, ég tala ekki um ef evran hrynur, hún verður einhvers konar gjaldmiðill ríkustu þjóða Norður-Evrópu, svo verður til annars konar evra í Suður- og Austur-Evrópu — ef menn horfa svæðisbundið á hvernig skynsamlegt er að gjaldmiðlar séu væri kannski ekkert óeðlilegt að við færum að velta fyrir okkur hvort væri til einhver Norður-Atlantshafskróna sem byggði staðfestu sína á sömu hlutum og íslenska efnahagskerfið og að stóru leyti það norska, að einhverju leyti það kanadíska og að sjálfsögðu bæði hagkerfi Grænlendinga og Færeyinga.

Allir eru sammála um að gjaldeyrishöftin séu slæm og ég held að allir vilji losna við þau. Það er hins vegar margt sérkennilegt sem kemur fram þegar sú umræða hefst; af hverju framlengja á höftin um fimm ár og herða þau enn frekar, þá ætlar sami stjórnarmeirihluti t.d. að afnema innflutningstolla á allar landbúnaðarvörur og væntanlega á allar aðrar vörur þannig að Ísland sé algerlega óvarið hvað varðar innlendan iðnað, matvælaframleiðslu og annað. Sú framleiðsla og sá iðnaður á að lifa þar af á heimsmarkaðsverði og eiga allt sitt undir því hvernig hákarlarnir úti í hinum stóra heimi haga sér á hverjum tíma, en á meðan á að binda allt í gjaldeyrishöftum.

Á sama tíma og við ætlum að hafa gjaldeyrishöft til að búa til skjól til að skapa þær aðstæður að samfélagið finni stöðugleika; krónan styrkist, atvinnulífið eflist og fjárfestingar og hagvöxtur aukist, eru skattahækkanir á skattahækkanir ofan sem gera það að verkum að fyrirtækin ná sér engan veginn á strik. Reyndar spila fleiri hlutir þar inn í, eins og pólitískur órói.

Fulltrúar tækni- og hugverkaiðnaðarins komu á þingflokksfund hjá okkur framsóknarmönnum í dag og fjölluðu um framtíðarsýn og stefnumótun. Það er sláandi að gjaldeyrishöftin eru það sem þvælist einna mest fyrir þeim greinum þannig að það er ekkert samhengi í hlutunum í þessum málum frekar en svo mörgum öðrum. Það er augljóst að sú áætlun sem ríkisstjórnin hefur stuðst við gengur ekki upp og virðist vera löngu úr sér gengin. Það hefði verið löngu tímabært að staldra við, líta upp og velta fyrir sér hvernig það plan hefur virkað. Það hefur reyndar komið í ljós að Samfylkingin hafði ekkert annað plan en að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Það hefur engin önnur lausn komið fram og þeir hafa ekki verið til umræðu um að endurskoða þá áætlun. En það er augljóst að þjóðin er ekki á sama máli um það efni samkvæmt skoðanakönnunum og það er ekki skynsamlegt að halda áfram á sömu braut þegar ekki gengur betur en raun ber vitni að uppfylla allar þær áætlanir sem menn hafa sett sér. Þá er skynsamlegast og eðlilegast að staldra við og búa til nýtt plan, henda plani A og taka upp plan B.

Í umræðunni liggja fyrir fjölmörg nefndarálit sem dæmi eru um að menn eiga erfitt með að ná saman í þessu máli. Umræðan í vor endaði reyndar á því að nefndin sjálf sendi frá sér breytingartillögur og síðan greinargerð þar sem hún lagði til að sumarið yrði notað til að fá óháða aðila til að líta yfir málið og gera lagalega og hagfræðilega úttekt. Eins átti að kanna hvort úrræðin í frumvarpinu mundu nægja Seðlabankanum til að ná fram markmiðum sínum varðandi gjaldeyrishöftin eða hvort það dygði að gera einhverja einfaldari hluti. Í því skyni voru gjaldeyrishöftin sem eru í dag framlengd í vor til septemberloka. Það hljómar skynsamlega við þessar aðstæður, herra forseti, að við gerum hlé á þessari umræðu og setjum málið í þann farveg sem menn settu málið í í vor en luku því ekki þar sem þær úttektir sem ég nefndi voru ekki gerðar. Við stöndum á nákvæmlega sama stað og við stóðum þegar umræðunni lauk í byrjun júní. Það væri því skynsamlegast að mínu mati að gera hlé á umræðunni og finna lausn á því hvernig við getum náð saman um að ljúka málinu. Tilfinning mín fyrir því er sú, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lagt til, að núverandi gjaldeyrishöft verði framlengd til áramóta, 31. desember í ár, og að tíminn fram að því verði notaður til að gera óháðar úttektir og kanna hvað við getum gert í þessum efnum.

Einnig hafa komið fram aðrar tillögur og það er sjálfsagt mál að skoða þær og setja þær inn í þennan pakka, þ.e. hvort hægt sé að losa gjaldeyrishöftin hraðar en gert er í þeirri áætlun sem er í frumvarpinu. Í stað þess að við stöndum hér og tölum út í tómið til að reyna að fá stjórnarliðana til að hlusta væri þetta auðvitað miklu skynsamlegri og skilvirkari leið, við eyddum tímanum þá í að klára önnur mál sem liggja fyrir þessum septemberstubbi. Það var tilgangurinn með þessu septemberþingi að koma saman í hálfan mánuð eftir sumarhlé og klára mál sem menn gleymdu, illu heilli, og ljúka öðrum sem ekki náðist tími til að klára en nokkur sátt var um. Þetta er skammur tími, tvær vikur. En þess í stað erum við í hverju málinu á fætur öðru að karpa um hvort skynsamlegt sé að taka stórar og miklar ákvarðanir án þess að menn séu búnir að komast að niðurstöðu eða kanna til hlítar hvort þetta sé skynsamlegasta leiðin eður ei, þeir vaða bara af stað. Það er auðvitað ekki skynsamlegt.

Í gær eða í fyrradag náðist þó ágæt sátt um mál sem var djúpstæður ágreiningur um milli stjórnarliða og stjórnarandstöðu, þ.e. um fullgildingu Árósasamningsins. Þar sáu menn ljósið, að skynsamlegt væri að ljúka því máli með samkomulagi. Ég tel að þetta mál sé þess eðlis að það sé mjög mikilvægt að á bak við það sé stærri meiri hluti en sá minnsti mögulegi. Ég vil líka leyfa mér að trúa því að innan stjórnarliðsins sé verulegur ágreiningur eða í það minnsta áhyggjur af því hvort þetta sé rétta leiðin.

Það hefur líka verið nefnt í þessari umræðu að ræða þurfi fleiri hluti eins og t.d. að endurskoða peningastefnuna, og ég tek undir það heils hugar. Ég tel að sú peningastefna sem við höfum fylgt bráðum í áratug hafi ekki skilað því sem hún átti að skila. Hún átti án efa stóran þátt í þenslunni og því bóluhagkerfi sem hér skapaðist. Það hjálpaðist auðvitað fleira að en ég held að sú stefna hafi átt stóran þátt í því. Við virðumst þó ætla að halda tryggð okkar við þá vonlausu stefnu og halda áfram á sömu braut. En í samfélagi kreppunnar þar sem vaxtahækkanir og takmarkað aðgengi að lánsfé fyrir framkvæmdir og ekki síður takmarkað traust á þeim sem ætla að fara í framkvæmdir er það sem mun verða okkar helsti akkillesarhæll ef við ætlum að halda tryggð við þá peningastefnu. Hún var slæm í uppganginum en ég held hún sé enn verri í kreppunni.

Ég ætlaði að nota hluta af tíma mínum til að fara yfir nefndarálit 2. minni hluta sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson undirritar þar sem hann fór yfir hvað hefði að hans mati komið fram í nefndinni og þeim álitum og umsögnum sem til nefndarinnar var skilað, en ég sé að það gengur nokkuð hratt á tíma minn þannig að ég hyggst nota næstu ræðu mína til að fara yfir það. Ég vil í lokin á þessari ræðu enn og aftur hvetja stjórnarliða til að koma til móts við okkur í minni hlutanum varðandi þetta mál. Ég bið þá um að velta því fyrir sér hvort það sé ekki skynsamlegra að fara þá leið sem við samþykktum og samkomulag varð um í nefndinni í vor að áður en við lögleiddum enn stífari gjaldeyrishöft til lengri tíma mundum við fá óháð álit, lögfræðileg, hagfræðileg og álit annarra sérfræðinga á því. Þeir mundu þá geta metið hvort þau höft sem eru í dag nægi Seðlabankanum eða hvort það þurfi að breyta þeim á einhvern hátt.