Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 21:22:14 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég svari síðustu spurningu hv. þingmanns um hvort þetta frumvarp sé sérstaklega til þess fallið að knýja okkur inn í Evrópusambandið eða taka upp evruna, þá tel ég svo ekki vera. Ég vil bara árétta það að þó að menn færu í það ferli er það margra ára ferli að koma sér inn í myntsamstarf Evrópu. Ég hvet til þess að við horfum á allar mögulegar lausnir í þeim efnum en hins vegar hef ég sagt það, og ég veit að hv. þingmaður hefur hlustað á það í ræðum mínum á undan, að við erum í þeirri stöðu hér í efnahagsmálum og atvinnumálum að ríkisstjórnin hefur leitt til þess að það verður erfitt að afnema höftin í einni sviphendingu. Það er því miður þannig en við þurfum að breyta efnahagsstefnunni og ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um það og fleiri, trúlega allir í salnum nema kannski hæstv. forseti, að það er þörf á stefnubreytingu og meira að segja held ég að hæstv. forseti geti tekið undir með okkur, sumum, í einhverjum hlutum í þeim efnum.