Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 21:25:42 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ásamt mörgum öðrum verið gagnrýninn á það hvernig Seðlabankinn hefur staðið að verkum frá hruni. Ég vil minna á það og þessu til staðfestingar að við framsóknarmenn komum fram með í efnahagstillögum okkar í febrúarmánuði 2009 m.a. tillögur að uppboðsmarkaði með gjaldeyri. Rúmlega tveimur árum síðar dettur Seðlabankanum í hug að fara út í slíkar framkvæmdir, rúmum tveimur árum síðar. En það var ekki fyrst þá sem Seðlabankanum datt slíkt í hug. Hann hafði ýjað að því að fara í slíkar framkvæmdir fram að því en það varð ekkert af því. Það vantar alla festu og það vantar í raun og veru alla framtíðarsýn þegar kemur að skipan peningamála og efnahagsmála í landinu. Þess vegna sagði ég og það ekki að ósekju að ég telji að áætlun Seðlabanka Íslands um afnám þessara hafta hvíli í heild á veikum stoðum.

Þar á ég annars vegar við hvernig Seðlabankinn hefur hagað störfum sínum allt frá hruni og hins vegar þetta frumvarp sem birtist hér um líkamsleit á fólki, að ef fólk kæmi til landsins með klink í vasa eða nokkra peningaseðla og gleymdi að skila því í viðkomandi bankastofnun lægi við því einhver stórkostleg sekt eða jafnvel fangelsisvist. Það þarf náttúrlega þvílíkt ímyndunarafl til að setja svona hugmyndir og svona hugmyndafræði á blað að það er langsótt að nokkrum heilvita manni detti svona í hug, enda fékk þetta frumvarp þá umfjöllun úti í samfélaginu að fólk átti ekki til orð. Það er því eðlilegt að fólk spyrji sig: Á hvaða leið eru stjórnvöld ef haldið er áfram á þessari vegferð? Ég hef svarað því þannig að ég telji að verið sé að færa Ísland aftur um marga áratugi ef menn halda áfram á þessari leið.