Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 21:29:12 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:29]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er það á endanum ábyrgð ríkisstjórnarinnar hvernig á þessum málum er haldið. Þess vegna hefur fjarvera ríkisstjórnarinnar vakið athygli mína og margra annarra hér í kvöld, fjarvera ríkisstjórnarinnar og þingmanna stjórnarflokkanna sem bera ábyrgð á framgangi þessa máls. Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með hversu lítinn þátt þingmenn stjórnarinnar hafa tekið í umræðunni.

Ég vil hins vegar segja það að Seðlabankinn þarf sitt aðhald og við stjórnmálamenn, rétt eins og allir aðrir í samfélaginu, þurfum að veita mikilvægri stofnun eins og Seðlabankanum málefnalegt aðhald. Ef við getum lært eitthvað af hruninu og hvernig fór þar þá var það skortur á gagnrýnni hugsun. Gagnrýni í sjálfu sér er ekki slæm og menn eiga að þora að spyrja óþægilegra hluta og að þeim verði þá bara svarað. Ég tel að enginn sem kemur nálægt þessum málum sé yfir gagnrýni hafinn og það sé mikilvægt að við höldum áfram að spyrja gagnrýnna spurninga.