Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 21:50:01 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að slík vinnubrögð eru náttúrlega ekki neinum til sóma hvar sem þau væru unnin, og síst á hinu háa Alþingi. Það gefur augaleið því að hv. þingmaður vitnar hér í þingskjal þar sem gert er ráð fyrir að fram fari lögfræðileg og efnahagsleg úttekt og greining á frumvarpinu. Svo koma svör um það að einhverjir tveir aðilar hafi verið kallaðir á fund.

Auðvitað er það einskis virði að gera þetta svona. En því miður er það svo með hæstv. ríkisstjórn að það er nánast sama hvað samið er um, það virðist oft og tíðum ekki standa. Það er ekki borin mikil virðing fyrir því sem samið er um. Hægt er að nefna stöðugleikasáttmálann og margt annað. Ég man eftir aðila sem kom á þingflokksfund hjá okkur í sambandi við stöðugleikasáttmálann sem sagði frá því að stjórnarþingmaður hefði verið spurður að því á einhverjum fundi hvers vegna ekki hefði verið staðið við ákveðna hluti í stöðugleikasáttmálanum og þá var svarið að það hefði aldrei staðið til að standa við þetta.

Þannig eru viðbrögðin. Auðvitað væri miklu skynsamlegra, eins og hv. þingmaður bendir á og farið hefur verið fram á af stjórnarandstöðunni, að menn hættu þessu karpi og reyndu að setjast niður til að vinna gagn fyrir þjóðina. Það er ekki verið að semja fyrir stjórnarandstöðuna, við verðum auðvitað að hugsa um hag þjóðarinnar. Og það veit hv. þingmaður miklu betur en ég, af því að ég hef bara verið hér stutt, að þau vinnubrögð eru miklu betri. Hv. þingmaður er búinn að vera hér síðan rétt eftir fermingu, ef ég veit rétt, kom mjög ungur inn á þing svo það gefur augaleið að hann þekkir það betur. Það er auðvitað skynsamlegra að menn setjist niður, stjórn og stjórnarandstaða, þá fæst oft góð lending í mál og góður árangur næst og tekið tillit til allra. Auðvitað hastar ekki að klára þetta á einhverjum vikum. Við þurfum að fara yfir stöðuna, menn þurfa að setjast niður og fara yfir og endurskoða peningamálastefnuna í heild. Það er það sem gera þarf.