139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

620. mál
[13:42]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2009, frá 4. desember 2009, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/81 frá 23. október 2001 um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 4. júní 2010. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.

Markmið tilskipunarinnar er að loftmengun haldist innan viðmiðunarmarka. Í því skyni er losun loftmengandi efna sem falla undir gildissvið tilskipunarinnar takmörkuð.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp umhverfisráðherra um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum fjalla um það efni.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir nefndarálitið skrifa Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.