139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

620. mál
[13:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki viss um hvaða þýðingu það hefur að óska eftir andsvari þegar maður fær engin svör og maður er hreinlega niðurlægður í ræðustól.

Hér er verið að fjalla um mjög stórt mál. Áðan var verið að fjalla um enn stærra mál. Þetta leiðir til þess að setja þarf lög á Íslandi. Þetta eru miklar breytingar. Maður vill helst vita um hvað málið fjallar. Þó að búið sé að gera samkomulag um málið og þetta sé nú allt saman vel rætt vildi ég gjarnan vita um hvað málið snýst og fá svar.

Ræðan sem var flutt sagði ekkert um hvað þetta snerist, ekki nema að setja þyrfti alls konar lög á Íslandi í kjölfarið um koldíoxíðlosun, sem getur verið mjög dýrt fyrir efnahagslífið og getur verið mjög skaðlegt ef við búum við atvinnuleysi. Mér finnst að menn þurfi nú rétt aðeins að átta sig á því hvað þeir eru að gera. Þó að samkomulag sé, tímaþröng og allt slíkt, þá þurfa menn rétt aðeins að upplýsa venjulega þingmenn um það sem er að gerast.