Samvinna milli ríkissjónvarpsstöðva vestnorrænu ríkjanna

Föstudaginn 16. september 2011, kl. 15:06:56 (0)


139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

samvinna milli ríkissjónvarpsstöðva vestnorrænu ríkjanna.

481. mál
[15:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við höfum verið að ræða Stjórnarráðið nokkuð ítarlega, þar hafa menn að sjálfsögðu rætt aðgreiningu framkvæmdarvalds og löggjafarvalds sem og dómsvalds. Ég hef margoft bent á að þegar Alþingi fer að skipta sér af framkvæmdum og leggja til ákveðnar framkvæmdir hverfur um leið ábyrgð framkvæmdarvaldsins á þeim sömu framkvæmdum. Og þar sem Alþingi á að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu er það dálítið undarlegt ef það fer sjálft að standa í framkvæmdum. Hver á þá að hafa eftirlit með þeim framkvæmdum sem Alþingi ákveður?

Segjum að þessi tillaga og fleiri sem við höfum verið að ræða floppi, þetta verði bara algjört fíaskó, algjör vandræði, kosti mikið og mislukkist á allan máta og slíkt, hver ætlar þá að hafa eftirlit með því? Á Alþingi að hafa eftirlit með ákvörðunum sem það sjálft lagði til og tók? Ég vara við þessu og vildi gjarnan að framkvæmdarvaldið fengi að vera í friði fyrir Alþingi en jafnframt að Alþingi fái að vera í friði fyrir framkvæmdarvaldinu.