Safnalög

Föstudaginn 16. september 2011, kl. 16:40:57 (0)


139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

safnalög.

650. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta menntmn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hleyp hér inn og segi frá nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar um safnalög.

Nefndin hefur fjallað mikið um þetta mál og fengið til sín fjölmarga gesti.

Hér er kveðið á um skipulag og stjórnsýslu safnamála á Íslandi með það fyrir augum að efla starfsemi safna í landinu og tryggja markvissari nýtingu fjárveitinga. Staðan hefur verið þannig að á Íslandi hafa verið mjög mörg söfn. Gerð hefur verið skýrsla um það þar sem fram kom að við þyrftum að gera þessa starfsemi markvissari. Almennt má segja um frumvarpið að þar komi fram sú stefna stjórnvalda að stuðla að auknu samstarfi og skýrari verkaskiptingu safna í landinu og ýta undir samstarf safna.

Þetta frumvarp tekur til safna í eigu ríkisins og annarra safna. Hér er talað um „safnvísa“, „setur“ og „sýningar“ og það skilgreint talsvert því að stór hluti stofnana í landinu sem stunda safnatengda starfsemi telst fremur til safnvísa en safna. Það kemur fram að safnvísir starfi að nokkru leyti sem safn en uppfylli ekki öll skilyrði laganna, en síðan erum við með viðurkennd söfn og síðan sýningar þar sem eru afmörkuð svið.

Hér er talað um safnaráð, og í nefndarálitinu kemur fram hvernig það er skipað.

Talað er um viðurkennd söfn þar sem fram kemur að ráðherra veiti safni viðurkenningu að fenginni tillögu safnaráðs. Þetta er formlegt ferli sem er nýmæli í íslenskri löggjöf. Í frumvarpinu er síðan fjallað um þau skilyrði sem þarf til þess að söfn geti fengið þessa viðurkenningu þar sem þarf að uppfylla ýmis skilyrði, bæði ytri og innri. Viðurkennd söfn þurfa að taka á sig þá skyldu að þau veiti skólanemendum sem heimsækja þau vegna náms aðgang án gjaldtöku, en um þetta er síðan nánar fjallað í nefndarálitinu.

Um starfsemi viðurkenndra safna er talað um aðgang að fjármagni og hvernig þau nýti það og talað um aðgangseyri. Að lokum er talað um safnasjóð. Fjallað er um hlutverk safnasjóðs í VI. kafla frumvarpsins en meginhlutverk sjóðsins er að efla starfsemi safna sem undir lög þessi falla. Styrkjum er úthlutað úr safnasjóði að fengnum tillögum safnaráðs. Í núverandi frumvarpi er talað um að það sé safnaráð sem úthlutar styrkjum. Það komu fram hjá umsagnaraðilum athugasemdir þess efnis að betra væri að viðhalda núverandi fyrirkomulagi en leggja til þessar breytingar, en meiri hlutinn bendir á að það hlutverk safnaráðs að setja safnasjóði úthlutunarreglur sem ráðherra svo staðfestir. Með þessari breytingu er fyrirkomulag úthlutunar styrkja fært til þess sem gildir um ýmsa aðra sjóði á sviði menningarmála. Sem dæmi má nefna úthlutanir úr tónlistarsjóði og leiklistarsjóði þar sem fagnefndir gera tillögur til ráðherra. Meiri hlutinn telur því eðlilegt að sama fyrirkomulag verði viðhaft um úthlutanir úr safnasjóði, þ.e. að úthlutun sé í höndum æðra stjórnvalds á grundvelli tillagna frá safnasjóði.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali þar sem ég bara vísa til þess skjals, það er þskj. 1845, þar sem fyrst og fremst eru formlegar breytingar um að ýmis ákvæði falli brott og nýjar skilgreiningar komi á lögum. Við veltum því til dæmis mikið fyrir okkur hvernig við ættum að skilgreina safnvísa og safnatengda starfsemi og vísa ég hér til ágætrar umfjöllunar í þessu nefndaráliti.

Undir þetta nefndarálit skrifa Skúli Helgason formaður, Þuríður Backman, Oddný G. Harðardóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Auður Lilja Erlingsdóttir.