Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 16. september 2011, kl. 17:38:44 (0)


139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

fæðingar- og foreldraorlof.

748. mál
[17:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fyrst um undirskrift undir nefndarálitið, hvernig á því standi. Ég hefði viljað að sú regla yrði tekin upp í nefndum að þegar aðeins eitt nefndarálit berst sé ekki einungis sagt hverjir skrifi undir það og hverjir hafi verið fjarverandi heldur getið um þá sem ekki skrifa undir nefndarálitið því að fyrir því er yfirleitt alltaf einhver ástæða. Þetta er bara framkvæmdaratriði en ég vildi gjarnan koma þessu að, að það kæmi þar fram að einhverjir nefndarmenn skrifa ekki undir nefndarálitið. Nú þurfa menn eiginlega að fara að leggjast í að ráða gátur til að finna út úr því hverjir af nefndarmönnum voru viðstaddir en skrifuðu ekki undir.

Ég og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, skrifuðum ekki undir nefndarálitið, vegna þess að í 4. gr. er tekið á vandamáli sem kemur upp varðandi ESA. Það snýr að því hvort erlendir aðilar, sem eru þátttakendur á vinnumarkaði í einhverjum skilningi, fái fæðingarorlof hér á landi. Við vildum láta reyna á þetta vegna þess að íslenskir aðilar njóta ekki sama réttar í útlöndum eða innan Evrópusambandsins. Þetta er nefnilega ekki almennur réttur og miklu betra hefði verið að fá úrskurð frá ESA um þetta þannig að Íslendingar, sem flytja erlendis og eiga sín börn þar, geti þá veifað því áliti til að fá rétt í þeim löndum. Það varð ekki ofan á og þess vegna skrifuðum við ekki undir þetta nefndarálit, við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins.

Þetta er svo sem ekki stórt mál, ekki er talið að stór hluti fólks falli undir þetta og lítil hætta á misnotkun. Menn fara ekki að skipta um land til þess eins að fá fæðingarorlof o.s.frv., síst af öllu að fólk fari að flytja til einhvers lands til að eignast barn til þess eins að fá fæðingarorlof. Menn sjá því ekki neina hættu á misnotkun í þessu en við vildum tryggja gagnkvæmni í þessu fyrir íslenska aðila. Að öðru leyti gæti maður alveg stutt þetta mál og það mun koma í ljós í atkvæðagreiðslu hvað af því við styðjum.

Svo er annað, frú forseti, sem ég vildi gjarnan koma inn á, það er sú tíska eða lenska að setja inn í frumvörp, sem lögð eru fram af ákveðnu tilefni, eitthvað allt annað og óskylt og í þessu frumvarpi er eitthvað um það og það gerir það að verkum að málin verða ekki nógu markviss.

Fæðingarorlofssjóðurinn. Það er mjög dapurleg þróun þar. Hann var upphaflega settur á laggirnar fyrst og fremst til að auka jafnrétti á vinnumarkaði, fyrst og fremst til að gera karlmenn jafndýra og konur fyrir atvinnulífið. Áður var það þannig að konur fengu fæðingarorlof og hættu þá í vinnu meðan á því stóð en karlmenn gerðu það ekki. Þar af leiðandi voru karlmenn í einhverjum skilningi betri vinnukraftur fyrir fyrirtækin og var það talið geta stuðlað að launamisrétti. Það var hreinlega dýrara að hafa konur sem gátu farið í fæðingarorlof hvenær sem er og þess vegna var fæðingarorlofið tekið upp. Aukaafurð af fæðingarorlofinu er náttúrlega það að það var bæði lengt og fjárhæðin hækkuð mikið sem gerði það að verkum að kerfið varð miklu betra, líka fyrir börnin. Það sem kom líka út úr því var það, sem er mjög jákvætt, frú forseti, að tengsl feðra við börn sín urðu miklu nánari, þeir þekktu krílin sem áður var kannski misbrestur á.

Þetta var því mjög gott kerfi en í sparnaðaraðgerðum undanfarinna ára hafa menn stöðugt verið að skerða hámarkið. Það gerir það að verkum að þessi áhrif um jafnrétti gilda eiginlega bara um lægri laun. Það er ekki alveg nógu gott að menn stefni að jafnrétti í lágum launum en í háu laununum eigi karlmennirnir enn að vera ódýrari. Afleiðingin af þeirri skerðingu á hámarkinu, eða sem sagt af upptöku hámarks sem sífellt er verið að lækka — það er komið niður í rétt 300 þús. kr., ef ég man rétt — er sú að karlmenn eru hættir að nota fæðingarorlofið og þá hverfa burt þau jákvæðu áhrif sem ég nefndi hér áðan. Karlmenn eru þá aftur orðnir ódýrari fyrir fyrirtækin fyrst þeir fara ekki í fæðingarorlof. Það kostar heilmikið að ráða nýja starfsmenn og er heilmikið umleikis fyrir fyrirtæki að skipta um starfsmenn, ráða nýjan, hætta á mistökum, það þarf að kenna nýjum starfsmanni o.s.frv., og svo þegar sá sem var í fæðingarorlofi kemur til baka vill sá starfsmaður sem var ráðinn í stöðu hans vera áfram. Það er því heilmikil röskun í fyrirtæki við það að fólk fer í fæðingarorlof. Að sjálfsögðu á það að vera þannig, fólk þarf að sinna börnum. Það er bara spurning hvort það séu eingöngu konur eða líka karlmenn.

Þessi áhrif eru að hverfa og þar af leiðandi eru karlmennirnir aftur orðnir ódýrari fyrir fyrirtækin. Hættan er þá sú að það hægi á launajafnrétti eða jafnvel að það gangi til baka, sem er afskaplega neikvætt. Það er mjög miður, frú forseti, að við skulum horfa upp á það núna 30 árum eftir kvennafrídaginn fræga, sem ég batt miklar vonir við, að launamisréttið skuli enn vera til staðar, það er ömurlegt.

Af hverju er það ömurlegt, frú forseti? Í fyrsta lagi er það bara af réttlætissjónarmiðum, manni finnst að ekki eigi að mismuna fólki eftir kyni. En það er líka efnahagslegt sjónarmið, þegar fólki er mismunað í einhverjum skilningi er ekki verið að nýta bestu hæfileikana og bestu eiginleikana. Þá eru stöður ekki eins vel mannaðar og mögulegt er og það hefur skaðleg áhrif á efnahag landsins. Fæðingarorlofið er því efnahagslegt mál líka og misrétti kynjanna er efnahagslegt mál eins og misrétti yfirleitt.