Orlof

Föstudaginn 16. september 2011, kl. 17:51:06 (0)


139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

orlof.

661. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 30/1987, um orlof, með síðari breytingum.

Nefndin fékk fulltrúa frá velferðarráðuneyti á sinn fund en með frumvarpi þessu er lögð til breyting á rýmkun á rétti starfsmanna til töku orlofs í kjölfar veikinda. Samkvæmt gildandi lögum um orlof þarf starfsmaður, sem vegna veikinda gat ekki farið í orlof á þeim tíma sem ákveðið hafði verið, að ljúka orlofi fyrir 31. maí næstan á eftir ellegar fá orlof sitt greitt út. Felur frumvarpið í sér að þetta skilyrði verði fellt niður en áfram er gert ráð fyrir því að starfsmaðurinn taki orlof eins fljótt og unnt er.

Enginn af átta umsagnaraðilum gerir athugasemd við málið sem unnið hefur verið í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Telur nefndin efni frumvarpsins til hagsbóta fyrir starfsmenn þar sem réttur þeirra til orlofs er rýmkaður og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir álit þetta rita Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Pétur H. Blöndal, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.