Húsnæðismál

Föstudaginn 16. september 2011, kl. 18:16:33 (0)


139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

húsnæðismál.

100. mál
[18:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta var rætt nokkuð ítarlega í nefndinni. Að sjálfsögðu þarf Íbúðalánasjóður, sem reyndar gefur út skuldabréf með ríkisábyrgð, sem hann selur á markaði, að fjármagna sig með óverðtryggðum hætti. Það er einmitt það sem er verið að heimila í þessum lögum, þ.e. að hann hafi heimild til að gefa út óverðtryggð bréf með ríkisábyrgð til þess að standa á móti þessum óverðtryggðu útlánum. Þar kemur því beint samhengið á milli uppsprettu fjárins, sem er sala á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum til almennings og lífeyrissjóða, og hins vegar útlánin. Þetta er það sem menn þurfa alltaf að hafa í huga, menn þurfa að huga að uppsprettunni, að hún þorni ekki. Ef menn ganga of hart á uppsprettuna gæti hún þornað og þá fá menn ekki lán, það er mjög einfalt, eða ef vextir hækka upp í himininn, ef ekki er nægilegt framboð af lánsfé.

Þetta er mjög vandasamt af því að ég er ekkert viss um að margir vilji lána, jafnvel með ríkisábyrgð, til mjög langs tíma með föstum vöxtum. Þess vegna var rætt um það í nefndinni að hafa þetta fimm ára tímabil, að vextirnir yrðu breytilegir á fimm ára fresti eða eitthvað slíkt. Þetta var rætt mikið og þetta er náttúrlega ákveðin kúnst sem menn þekkja vel í útlöndum þar sem lengi hefur verið unnið með óverðtryggð bréf á markaði í sveiflukenndri verðbólgu, sem er reyndar alltaf miklu lægri en hér. Þá komum við kannski inn á stjórnun peningamála og það hvernig okkur tekst til að halda verðbólgunni niðri, og það er nú kannski okkar vandamál en ekki verðtryggingin. Vandamálið er sveiflukennd verðbólga sem kemur í bakið á sparfjáreigendum, sem eru uppspretta fjárins, eins og ég gat um. Það þarf að gæta vel að þeirri uppsprettu því að það er svo auðvelt að hætta að spara. Það er miklu auðveldara að hætta að spara en að hætta að skulda.