Húsnæðismál

Föstudaginn 16. september 2011, kl. 18:18:30 (0)


139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

húsnæðismál.

100. mál
[18:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt sem fram kom hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að rót vandans er ekki verðtryggingin, rót vandans er auðvitað sú hversu illa hefur verið haldið á stjórn efnahagsmála á Íslandi um áratugaskeið og hve sveiflur hafa einkennt hagkerfi okkar, og verðtryggingin er í sjálfu sér bara afleiðing óstjórnar og birtingarmynd hennar. Það þýðir þó ekki að hún geti ekki átt hlut að því að magna vandann. Ég held að eftir okkar miklu efnahagslegu ófarir sé óhjákvæmilegt að við ræðum það til þrautar hvort við þurfum ekki að hverfa frá þessu fyrirkomulagi og ég er eindregið þeirrar skoðunar að eitt af brýnustu verkefnum okkar á sviði efnahagsmála sé að gera það.

Ekki þar fyrir að það hafi ekki verið og staðið full rök til þess að taka upp verðtrygginguna á sinni tíð. Það er alveg rétt lýsing að hér í landinu var verið að brenna upp sparifé, kannski ekki síst eldra fólks sem lagt hafði í lífeyrissparnað eða í sparnað í bönkum sem brann upp á báli verðbólgunnar og varð að engu. Það var ákaflega ósanngjarnt og þróun sem óhjákvæmilegt var að bregðast við á þeim tíma. Ég er ekkert frá því að það hafi verið rétt á sínum tíma að bregðast við því nánast neyðarástandi sem var með því að taka upp þá háttu sem verðtryggingarkerfið er.

Það er líka rétt að í kenningunni eða teoríunni er ýmislegt sem getur bent til þess að verðtrygging sé gagnlegt tæki í hagkerfi og á fjármálamörkuðum og það má leiða ýmis rök að því að hún sé hentug við hitt og þetta. Nú hins vegar höfum við búið við þetta kerfi í um aldarþriðjung og það er auðvitað löngu orðið tímabært að við spyrjum okkur að því hvort kerfið virki í veruleikanum eins og því hefur verið lýst í kenningunni, hvort praxísinn hafi reynst jafnhaldgóður og teorían og reynslusannindin sem við höfum aflað af því að hafa þetta kerfi í liðlega 30 ár séu jafnjákvæð og skynsamleg og við höfum kannski haldið, mörg, framan af af þessu tímabili. Ég held að svo sé ekki og það sé sannarlega eitt af því sem við þurfum að læra, Íslendingar, af efnahagslegum óförum okkar að séríslenskar lausnir í efnahagsmálum er ekki stefna sem við eigum að fylgja. Við þurfum að læra það af óförum okkar að við eigum í öllum meginatriðum í stjórn efnahagsmála að temja okkur sömu hætti, sömu venjur, beita sömu stjórntækjum og aðferðum og aðrar þjóðir í okkar heimshluta og þróuðum ríkjum í veröldinni yfirleitt, en falla frá hinum séríslensku lausnum vegna þess að reynslusannindin í þessi liðlega 30 ár eru einfaldlega þau að séríslensku lausnirnar hafa ekki reynst haldbærar, ekki einu sinni til þess að verja grunngerð efnahagskerfisins, því að það hrundi náttúrlega, en þær hafa heldur ekki í veruleikanum reynst skila okkur minni sveiflum í efnahagsmálum eins og þó kenningin er né hefur þetta kerfi skilað okkur lægri raunvöxtum á íbúðalánum en almennt gerist í okkar heimshluta heldur þvert á móti hefur kerfið í reynd skilað okkur umtalsvert hærri raunvöxtum á íbúðalán en þekkist í okkar heimshluta og þó að leitað væri jafnvel víða um lönd.

Að fenginni þeirri reynslu held ég að eitt af grundvallaratriðunum við að læra betri siði í efnahagsmálum sé að hverfa frá þessu fyrirkomulagi og hverfa að því fyrirkomulagi sem menn beita annars staðar sem eru hin óverðtryggðu kjör. Í þessu eigum við hins vegar ekki að halda að felist nein patentlausn. Það er einn af þeim ósiðum sem við höfum tamið okkur í efnahagsmálum og þurfum að leggja af. Við eigum heldur ekki að horfa til þess að við eigum að ráðast í þetta á einni nóttu eða fara í eina kollsteypuna enn og hverfa frá verðtryggingu í einu vetfangi. Mikilvægt er að við þróum kerfið okkar frá þessum háttum eins og viðskiptabankarnir hafa verið að gera meira og minna án afskipta okkar stjórnmálamanna með því að þeir hafa boðið óverðtryggð lán þeim sem hafa verið að taka ný lán á markaði og þau lán hafa verið mjög vinsæl hjá neytendum. Þar með hefur valkostum fjölgað.

Það er líka fagnaðarefni að a.m.k. einn viðskiptabankanna hefur boðið öllum viðskiptavinum sínum sem hafa verið með verðtryggð lán að flytja sig yfir í óverðtryggð kjör og raunar boðið þeim fyrir það 10% lækkun á höfuðstól og þannig hafa þeir sem voru í eldra kerfinu líka átt valkost. Þannig að í þeim banka, Íslandsbanka, er a.m.k. víst að þeir sem enn eru með verðtryggð lán eru það vegna þess að þeir hafa kosið að vera áfram með verðtryggð lán. Við því er í sjálfu sér ekkert að segja, þeim voru boðin þau á sínum tíma og þeir tóku þau og auðvitað eiga þeir fullan rétt á því að halda þeim áfram.

Þetta skref sem hér er verið að taka, að bjóða óverðtryggð lán á vegum Íbúðalánasjóðs, er síðan mjög mikilvægt skref í þessari þróun. Ég held að ef þess væri nokkur kostur að leita leiða til að bjóða, með svipuðum hætti og Íslandsbanki hefur gert, þeim sem eru með verðtryggð lán hjá Íbúðalánasjóði að flytja sig á síðari stigum í þessari þróun — ég er ekki að tala um á næstu mánuðum en þegar Íbúðalánasjóður hefur fengið nokkra reynslu af því að gefa út óverðtryggð lán með þessum hætti — þá væri það líka mikilvægur kafli í því að skilja við þessa séríslensku sögu sem var auðvitað viðbrögð við neyðarástandi í lífeyrismálum hér fyrir liðlega 30 árum en hefur kannski ekki reynst farsælt tæki til frambúðar að styðjast við. Ég fagna því mjög þeirri heimild sem hér er verið að opna Íbúðalánasjóði að bjóða óverðtryggð lán og tel að okkur sé ekkert að vanbúnaði að veita sjóðnum þá heimild og vona bara að honum gangi sem allra best og skjótast að bjóða þennan nýja valkost og taka síðan frekari skref í framhaldinu.