Gjaldeyrismál og tollalög

Föstudaginn 16. september 2011, kl. 18:37:40 (0)


139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:37]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Við tökum nú aftur til við að ræða frumvarp til laga um framlengingu heimildar til að hafa við lýði höft á fjármagnsflutningum. Umræðan var umtalsverð um þetta mál í þingsal fyrir nokkrum dögum þótt núna hafi í nokkurn tíma verið hlé á efnisumræðum um málið.

Í mínum huga er ljóst að ákvörðun um að setja á gjaldeyrishöft var óhjákvæmileg í efnahagshruninu. Sú ákvörðun hjálpaði okkur að ná tökum á efnahagsástandinu í kjölfar hrunsins, koma á stöðugleika og forða mjög óheppilegri þróun sem hefði getað orðið með gríðarlegu falli krónunnar langt umfram það sem þó varð.

Það er þannig með gjaldeyrishöft að það er oft auðveldara að setja þau á en að taka þau af. Síðast þegar þau voru sett á tók það meira en 60 ár að afnema þau að fullu. Það er mjög mikilvægt að íslenskt efnahagslíf sætti sig ekki við gjaldeyrishöft, venjist þeim ekki og telji þau ekki eðlilegan þátt í efnahagslífinu. Forsendur þess eru að við höfum stöðugt auga með því hvernig við getum afnumið höftin og hraðað því afnámi eins og kostur er. Efnahagslíf sem er til langframa í skjóli hafta verður mjög skakkt og óheilbrigt og það verða til alls konar ambögur og skekkjur sem draga úr arðsemi, hindra erlenda fjárfestingu og draga þrótt og kraft úr mikilvægum samkeppnisgreinum sem eiga sér uppbyggingarmöguleika annars staðar. Þetta er sérstaklega mikilvægt í tilviki hugverka og þekkingargreina sem eru orðin okkur mjög mikilvæg stoð í útflutningstekjum en eru mjög hreyfanlegar og þurfa á hverjum degi að taka ákvarðanir um það hvar framtíðaruppbygging fari fram, hvar næstu 300 störf verði til. Er það hér eða þar? Gjaldeyrishöft eru gríðarleg hindrun í augum þessara aðila til uppbyggingar hér á landi. Þess vegna er það hluti heilbrigðrar efnahagsuppbyggingar að gefa skýra sýn um það hvernig hægt er að aflétta gjaldeyrishöftum og skapa samkeppnisgreinunum traustari rekstrargrundvöll. Hluti af því er líka fyrirheitið um betri og traustari gjaldmiðil og meiri efnahagslegan stöðugleika.

Virðulegi forseti. Forsendur afnáms hafta eru margar og eru raktar í þeirri áætlun um afnám hafta sem fylgir frumvarpinu. Þær eru helstar efnahagslegur stöðugleiki, traust á fjármálakerfi og skýr framtíðarsýn um gengis- og peningamálastefnu. Þess hefur nokkuð gætt í umræðu um þetta mál hér að þingmenn hafa velt upp þeirri hugmynd hvort hægt væri að ganga miklu hraðar í afnámi hafta og hvort það væri mögulegt að afnema höft á nokkrum mánuðum, þremur eða fjórum. Slíkar hugmyndir bera auðvitað vitni um mikið traust á efnahagsstjórninni og eru mikil viðurkenning á því verki sem við höfum unnið í að koma á efnahagslegum stöðugleika (PHB: Hvaða ályktun er þetta?) en þótt mér þyki hrósið gott og þyki mikið til um það traust sem þingmenn stjórnarandstöðunnar sýna efnahagsstjórninni með þessum hugmyndum tel ég samt að við séum að tefla nokkuð á tvær hættur með því að ganga svo hratt fram.

Hins vegar tek ég alvarlega þær ábendingar að það kunni að vera mikilvægt að skýra betur það ferli sem er hafið, afnámsferli hafta, og gefa skýrari fyrirheit til atvinnulífsins um að við séum á fullu í því að afnema höftin, að róa að því öllum árum að skapa þær aðstæður að haftaafnámið sé mögulegt og að við reynum að hraða sem kostur er þessu ferli. Með öðrum orðum sköpum við ekki þá tilfinningu að þetta sé eitthvert mál sem við vísum til framtíðar heldur þvert á móti mál sem við vinnum að á hverjum degi og markmið okkar sé að losa höft eins fljótt og mögulegt er.

Ég er sammála því að það megi gera bragarbót á opinberum yfirlýsingum að þessu leyti og sníða agnúa af frumvarpinu til að ná þessum árangri. Það er þó rétt að slá þann varnagla að aðstæður núna eru mjög erfiðar og viðkvæmni mikil á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, sérstaklega á skuldabréfamörkuðum með ríkisskuldabréf. Þessi óvissutími, sá mikli ólgusjór sem núna gengur yfir evrópska bankakerfið, nær ekki til okkar vegna gjaldeyrishaftanna akkúrat núna. Það er mikilvægt að við höfum í huga að þau veita okkur verðmætt skjól þessar vikurnar en það eru ekki rök til að halda þeim til langframa. Það eru rök til að halda þeim núna en ekki endilega til langframa.

Í umræðunni hér hefur tvennt verið rakið sérstaklega, annars vegar hvort mögulegt sé að taka efnisreglur sem er að finna í frumvarpinu eins og það er búið úr garði núna og setja þær frekar í lög eins og gert var í fyrirkomulaginu sem verið hefur verið í gildi hingað til. Því er til að svara að samkvæmt ráðleggingum fremstu lögfræðinga er rétt að bregðast við þeim athugasemdum sem fram hafa komið opinberlega um að lagagrunnur haftanna mætti vera sterkari og sumir lögfræðingar hafa gengið svo langt að gera því skóna að brot á lögunum eins og þau standa núna séu hreint og beint ekki refsiverð.

Það er mjög mikilvægt að meðan við höfum höft sé farið eftir þeim því að annars skapa þau bara gróðrarstíu og skjól fyrir spillingu og tvöfalt hagkerfi og þess vegna er ábyrgðarhluti fyrir okkur sem við verðum öll að rísa undir að tryggja að refsiákvæði laganna virki. Því miður getum við ekki komist hjá því að setja efnisreglurnar almennt í lög með þeim hætti sem nú er lagt upp með.

Hitt sem hefur verið rætt er tímalengd löggjafarinnar. Þar er ekki um að ræða dagsetningu sem er klöppuð í stein. Eins og ég hef margoft tekið fram fól frumvarpið í sér að við sæktumst eftir lagaheimild sem gæfi rúman tíma til afnáms hafta, gæfi okkur möguleika á að takast á við fjölbreyttar aðstæður og þess vegna að ýmsir hlutir kæmu upp á og þá þyrfti ekki að breyta áætluninni um afnám hafta. Það hefur alltaf legið fyrir að þessi mörk væru í lengra lagi en við teldum nauðsynlega þurfa í þetta ferli.

Ég held að það sé full ástæða til þess, og það hefur orðið niðurstaða af samtölum til að greiða fyrir meðferð málsins, að gera breytingu á árafjöldanum og leggja til við nefndina að hún setji fram breytingartillögu um að stytta hámarkstímann sem höftin standi og miða við árslok 2013 í stað ársloka 2015 eins og er í frumvarpinu. Jafnframt tel ég í ljósi þess sem ég hef þegar rakið rétt að taka saman og lýsa í stuttu máli þeim atriðum sem við teljum mikilvægt að setja í forgrunn svo þau skilaboð séu sett skýrt fram að við erum að vinna skipulega að afnámi hafta og að við útskýrum þau verkefni sem vinna þarf að á næstu mánuðum og missirum til að greiða fyrir afnámi hafta og mögulega flýta því. Þá getur öllum verið alveg ljóst að unnið sé á mörgum vígstöðvum að því að skapa þær aðstæður sem geta auðveldað okkur hratt afnám hafta.

Þess vegna er niðurstaða mín sú að leggja til að tímamörk afnáms gjaldeyrishaftanna verði mun skemmri en nú er gert ráð fyrir og að heimilt verði, eins og ég rakti, að viðhalda höftum til 31. desember 2013. Því verði þó haldið opnu að heimild til að viðhalda höftunum verði framlengd eftir þann tíma en þó ekki lengur en brýnasta nauðsyn krefur. Ég mun óska eftir tímasettri áætlun frá Fjármálaeftirlitinu fyrir 1. nóvember nk. um þær aðgerðir sem ráðast þarf í til að búa fjármálakerfið undir afnám hafta með úrvinnslu efnahagsreikninga og uppbyggingu innviða. Það er gríðarlega mikilvægt að enginn vafi leiki á því að íslenskt fjármálakerfi þoli afnám hafta og sé í stakk búið til að takast á við frjálsa fjármagnsflutninga.

Fyrsta skrefið í þessu er lögfesting nýs innstæðutryggingakerfis fyrir lok þessa árs og samstaða hefur náðst um að þingleg meðferð þess frumvarps verði greið. Tímalengd lagaheimildarinnar um afnám hafta verði síðan endurmetin til styttingar, m.a. í ljósi þessarar áætlunar. Ef hratt gengur að þessu leyti getur það orðið til þess að skapa rök fyrir því að flýta haftaafnáminu enn frekar.

Að höfðu samráði við efnahags- og skattanefnd hyggst ég skipa þverpólitíska nefnd sérfræðinga sem meti áfram svigrúm til að flýta afnámsferlinu og veiti stjórnvöldum og Seðlabanka aðhald. Það er mikilvægt að stjórnmálin fylgist með þessu ferli, séu í talsambandi við stjórnvöld og Seðlabanka sem fer með framkvæmd gjaldeyrishaftanna og að þar með leiki minni vafi á þeirri þörf sem er fyrir höftin og einstakar íþyngjandi reglur þeim tengdum á hverjum tíma. Ég mun fyrir lok október 2012 leggja fyrir Alþingi mat á því hvort áfram sé þörf á að höft verði við lýði til loka árs 2013 eða hvort mögulega séu forsendur til styttingar tímabilsins.

Í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og Seðlabankanum munum við fara yfir lagaákvæði um gjaldeyrishöft, kanna möguleika á að einfalda ákvæði laganna og fella út óþarflega íþyngjandi atriði er lúta að heimildum heimila og fyrirtækja. Þar horfum við sérstaklega á heimildir sem valda óþægindum en hafa ekki grundvallaráhrif á virkni haftanna að öðru leyti. Frumvarp þessa efnis verði lagt fyrir Alþingi ekki síðar en 1. nóvember nk.

Ég hyggst leggja fram skýrslu, og frumvarp ef með þarf, fyrir Alþingi um nauðsynleg þjóðhagsvarúðartæki til að greiða fyrir framkvæmd gengis- og peningamálastefnu og afnámi hafta fyrir lok febrúar 2012. Í þeirri skýrslu verður fjallað um þau tæki sem Seðlabanki og eftir atvikum önnur stjórnvöld gætu nýtt sér til að hafa stjórn á frjálsum fjármagnshreyfingum og koma í veg fyrir hættulegan óstöðugleika í kjölfar afnáms hafta. Margar slíkar heimildir munu væntanlega rúmast innan gildandi lagaheimilda og því ekki þurfa lagaheimildir til en ef lagabreytinga er þörf mun þeirra sjá stað í frumvarpi á þessum tíma.

Ég hyggst jafnframt skipa nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka til samráðs um mótun gengis- og peningamálastefnu. Það er mjög mikilvægt að við höldum áfram því verki sem við höfum hafið sem stjórnvöld, að leita samtals og samráðs um framtíðargengis- og peningamálastefnu. Ég kynnti hugmyndir í þessa veru í upphafi þessa árs og við höfum átt fundi með aðilum vinnumarkaðarins og hagsmunasamtökum í atvinnulífi og kannað hug þeirra að þessu leyti. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur gengist fyrir málþingum um þetta mál og fengið álit sérfræðinga um gengis- og peningamálastefnu, m.a. til andsvara við hugmyndir Seðlabankans sem settar voru fram í riti Seðlabankans, Peningamálastefna eftir höft, sem kom út í desember á síðasta ári. Þetta samtal þarf að fara lengra og verða með aðkomu allra stjórnmálaflokka.

Við munum væntanlega leggja fram frumvarp til breytinga á einstökum atriðum í lögum um Seðlabanka Íslands á vorþingi 2012, fyrst og fremst atriði sem eru til einföldunar, hagræðingar og skýringar til að Seðlabankinn nái betur að gegna hlutverki sínu. Alþingi gefst við það tækifæri færi á að fjalla um lagagrunn peningamálastefnunnar við meðferð þess máls á Alþingi.

Ég hef þegar ákveðið að leggja skýrslu fyrir Alþingi um umgjörð fjármálamarkaðarins í nóvember nk. og kynnti þá hugmynd í viðskiptanefnd fyrir nokkru. Hugur minn stendur til þess að sú skýrsla fari til efnislegrar umræðu í þinginu og umræðu og afgreiðslu í nefnd þannig að þingmenn fjalli um þessar hugmyndir um umgjörð fjármálamarkaðarins og skili áliti þar um. Sérfræðingahópur með aðkomu erlendra sérfræðinga mun síðan vinna tillögur að lagabreytingum á grunni þeirrar skýrslu sem lúta bæði að umgjörð fjármálamarkaðarins og stjórnskipulagi Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Ég á von á því að sá sérfræðingahópur gæti skilað af sér á vormánuðum á næsta ári þannig að þær tillögur gætu komið fram í frumvarpi haustið 2012.

Virðulegi forseti. Myndin af þingstörfum gefur oft samfélaginu ranglega til kynna að hér geti engir menn talað saman, að hér standi menn löngum stundum og flytji innihaldslausar ræður og að allt sé stöðugt í illindum og hnýfilyrðum. Í þessu máli hefur því alls ekki verið þannig farið. Við höfum átt mjög hreinskiptin og góð samskipti og skoðanaskipti og ég þakka sérstaklega fulltrúum stjórnarandstöðunnar í efnahags- og skattanefnd fyrir gott samstarf um þetta mál, hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, Pétri Blöndal, Birki Jóni Jónssyni, Þór Saari og Lilju Mósesdóttur. Ég held að það skipti miklu máli í miklu hagsmunamáli eins og þessu sem varðar miklu um framtíðarhorfur íslensks efnahagslífs að menn geti talað saman, komist að sameiginlegri niðurstöðu og vísað áfram veginn af skynsemi.