Gjaldeyrismál og tollalög

Föstudaginn 16. september 2011, kl. 18:58:34 (0)


139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Tvennt þótti mér slæmt í ræðu hæstv. ráðherra, annars vegar þegar hann túlkaði það að við vildum afnema höftin strax sem traust á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og hins vegar þegar hann þakkaði mér fyrir samstarfið. Ég vil ekki eiga neinn þátt í því sem hér er gert. Það á að setja í lög að hafa gjaldeyrishöft til ársins 2013 og ég spái því, frú forseti, að það verði 60 ár þar til þau verða afnumin. Nú eru þrjú ár liðin frá hruni og það hefur ekkert miðað í að afnema gjaldeyrishöftin.

Því miður er ég á þeim aldri að ég þekki gömlu gjaldeyrishöftin. Gallar gjaldeyrishaftanna voru siðrof, svindl og prettir, mjög dýrt mál, og það eru ekki bara stórir aðilar heldur fara menn almennt að svindla á kerfinu.

Svo er afnám einkalífs, Seðlabankinn er að snuðra í greiðslukortum einstaklinga og endar sjálfsagt á því að kíkja í veskið þegar maður kemur frá útlöndum eða þegar maður fer út.

Það er afnám eignarréttar sem er í stjórnarskránni. Ég get ekki flutt peningana mína með mér ef ég skyldi flytja til útlanda og það eru alls konar takmarkanir. Það þurrkar út fjárfestingar innan lands og það sem meira er, það veldur einangrun landsins, hefur mikinn kostnað í för með sér og veikir myntina, frú forseti, vegna þess að gjaldeyrishöft eru merki til allra, innlendra aðila sem erlendra, að myntin þurfi aðstoðar við. Hún er svo veik að hún þarf gjaldeyrishöft. Gjaldeyrishöftin minnka í sjálfu sér traust á myntinni.

Í heildina má segja að gjaldeyrishöft vinni og virki svipað og ópíum á mannslíkamann, valdi ákveðinni þægindatilfinningu og gleði til að byrja með og svo koma fram skemmdir, menn verða háðir því og geta ekki hætt. Svona er það.

Ég man umræðuna þegar átti að afnema gjaldeyrishöftin hin fyrri sem stóðu í 60 ár. Svei mér þá, mér finnst ég upplifa hana aftur. Þetta er nákvæmlega sama umræðan um áhættuna þegar gjaldeyrishöftunum er aflétt o.s.frv. Þetta er það sem er hættulegt við þetta vegna þess að menn munu segja: Það er svo mikil áhætta þegar við afnemum gjaldeyrishöftin að við getum ekki afnumið þau. Það verður alltaf þannig, frú forseti, það mun ekkert breytast. Ég ætla ekki að tefja málið og standa í vegi fyrir því að hæstv. ríkisstjórn komi þessu máli í gegn með sínum hv. stjórnarþingmönnum en ég er mjög hryggur og eindregið á móti því að lögbinda gjaldeyrishöft. Ég er mjög mikið á móti því vegna þess að ég óttast að það verði alltaf hættulegt að afnema þau aftur og þau verða framlengd og framlengd aftur og aftur.

Ég vona að ég verði ekki sannspár.