Gjaldeyrismál og tollalög

Föstudaginn 16. september 2011, kl. 19:02:35 (0)


139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[19:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir þá skýrslu sem hann flutti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þegar frumvarpið um gjaldeyrishöftin kom fram voru uppi um það nokkrar efasemdir í stjórnarliðinu, hjá stjórnarandstöðunni og úti um samfélagið. Ýmisleg gagnrýni var uppi á það enda um að ræða mjög alvarlegar skerðingar í þeim höftum sem voru innleidd árið 2008. Ég held að það sé mikilvægt að við höfum í huga að gjaldeyrishöftin voru innleidd 2008, það er ekki verið að innleiða þau hér og nú og enginn að flytja um þau frumvarp af því að þeir vilji gjaldeyrishöft eða viðhalda þeim. Við viljum auðvitað öll losna út úr þeim en það var nokkuð langt gengið, kannski sérstaklega í ákvæðum sem lutu að almenningi í því frumvarpi sem fram kom, og í sumar höfum við í efnahags- og skattanefnd tekið út til að mynda ákvæði sem lúta að skilaskyldu á gjaldeyri og annarri slíkri smásmygli sem óþarfi er að gera borgurunum armæðu með.

Við höfum á síðustu dögum farið yfir ólík sjónarmið um það hversu hratt megi vinna að afnámi gjaldeyrishaftanna. Það er ákaflega vandrataður meðalvegur milli þess sem raunsætt er annars vegar og hins vegar þess að hafa þau ekki of lengi í gildi. Niðurstaðan úr því er sú sem hæstv. ráðherra kynnti, að þau verði út árið 2013, og ég mun flytja hér á morgun breytingartillögu þess efnis. Þar með er tímalengd haftanna stytt um tvö ár frá því sem var í upphaflegu frumvarpi. Þau verða engu að síður framlengd til liðlega tveggja ára sem er sá tími sem Seðlabankinn þarf að hafa ef raunsætt á að vera að hann geti markvisst í skipulögðum áföngum unnið okkur út úr þessari stöðu.

Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir þá yfirlýsingu sem hann gaf. Hún er í framhaldi af samræðum sem hafa átt sér stað milli fulltrúa í efnahags- og skattanefnd frá öllum flokkum. Ég tel að hún spegli þau sjónarmið sem fram komu hjá fulltrúum allra flokka og raunar einum þingmanni utan flokka í nefndinni. Ég þakka nefndarmönnum sérlega fyrir gott samstarf í þessu og legg áherslu á mikilvægi þess að í stórum hagsmunamálum þjóðarbúsins megi takast á vettvangi þingsins að skapa sem víðtækasta sátt um niðurstöðuna. Ég tel að það hafi tekist og að það sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt til málanna megi vera ágæt fyrirmynd um það hvernig megi þróa mál áfram og vinna og ná sameiginlegri niðurstöðu þegar uppi eru, eðli málsins samkvæmt, ólík sjónarmið hjá fjölda fólks um allt samfélagið um erfið álitaefni eins og hér er verið að leiða til lykta.