Virðisaukaskattur o.fl.

Föstudaginn 16. september 2011, kl. 19:18:17 (0)


139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[19:18]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hef áður mælt fyrir þessu máli við 1. umr. því að það er flutt af hv. efnahags- og skattanefnd og því óþarfi að fara mörgum orðum þar um.

Hér er um að ræða skattalækkun, það að rafrænar útgáfur af bókum og tónlist teljist í lægra þrepi virðisaukaskattskerfisins. Hér er jafnframt verið að fella niður tolla og vörugjöld á lestæki fyrir rafbækur til að mynda það sem kallað er „kindle“ svo dæmi sé tekið, á ýmis hlustunartæki eins og ipod og önnur slík tæki, mp3-spilarar sem mikil verslun hefur verið með erlendis en tiltölulega lítill hluti verið keyptur hér heima vegna þess að menn hafa tekið of mikil gjöld af þeim, og litlar hvetjandi aðgerðir fyrst og fremst með það að markmiði að hraða rafbókavæðingu á Íslandi. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem málsvæði og til að halda menntakerfi okkar í fremstu röð að hér verði útgáfa rafbóka meðal þess sem fremst gerist hjá þjóðum en það er alveg ljóst að við erum ekki fremst í rafbókavæðingunni. Það eru talsvert margar þjóðir á undan okkur þar og mikilvægt að við sköpum almenn skilyrði til að örva þessa þróun og líka þær skapandi greinar sem starfa í þessu umhverfi.

Þetta tíðkast ekki í löndunum í kringum okkur. Alls staðar tíðkast það þó að bækur séu í lægra virðisaukaskattsþrepi þar sem því er til að dreifa en ég hygg að við Íslendingar yrðum fyrstir til að stíga það með rafrænar útgáfur á bókum, verði þetta að lögum á morgun sem ég vona, enda er þverpólitísk samstaða um málið. Ég þakka nefndarmönnum í efnahags- og skattanefnd kærlega fyrir gott og farsælt samstarf um flutning þessa máls og þessara þörfu breytinga.