Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Föstudaginn 16. september 2011, kl. 22:01:26 (0)


139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

19. mál
[22:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga frá hv. þm. Helga Hjörvar og fleirum um að lífeyrissjóðum verði heimilt að kaupa íbúðarhúsnæði og leigja það út. Í sjálfu sér góð hugmynd en ég óttast að aukast muni þrýstingur á stjórnir lífeyrissjóðanna um að kaupa húsnæði handa alls konar fólki sem vantar íbúð til leigu. Þá muni rekast á hagsmunir lífeyrissjóðsins til að ná góðri ávöxtun og hagsmunir viðkomandi leigjanda að fá góða og þægilega leigu. Ég held að ekki sé ástæða til að setja stjórnir lífeyrissjóðanna undir slíkan þrýsting og bendi á að lífeyrissjóðirnir gætu keypt og stofnað hlutafélög um íbúðarhúsnæði til útleigu og keypt svo hlutafé í því sama hlutafélagi, það er mögulegt núna. Þá er líka komin lengri fjarlægð milli stjórnar lífeyrissjóðsins og viðkomandi leigjanda, sem minnkar líkurnar á hagsmunaárekstri. (Forseti hringir.)