Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 16. september 2011, kl. 23:01:38 (0)


139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[23:01]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég get tekið undir síðustu orð hv. þm. Péturs H. Blöndals um glannalegan rekstur margra sveitarfélaga. Það er vissulega rétt. Eins og kom fram í máli mínu áðan bendir allt til þess miðað við stöðuna í dag að um þriðjungur sveitarfélaga í landinu muni lenda undir þeim mörkum sem frumvarpið setur um skuldir og ábyrgðir sveitarfélaga. Það eitt segir okkur að það er full nauðsyn á að setja miklu skýrari og skarpari reglur um fjárfestingar sveitarfélaga og heimildir þeirra til að skuldsetja sig.

Varðandi atkvæðagreiðslu um álagningu gjalda og útsvars eða fjárhagsáætlana er ekki gert ráð fyrir öðru í frumvarpinu en að hægt verði að kjósa um fjárhagsáætlunina áður en hún fer í gjalddaga og raunar hvað sem er. Ég geri ráð fyrir því að nefndin muni ræða þetta milli 2. og 3. umr. Þetta komst talsvert til umræðu í nefndinni og ég held að það hafi verið skoðun flestra nefndarmanna að það beri að takmarka einhvern veginn hvort hægt sé að bera sérstaklega undir atkvæði heilu fjárhagsáætlanirnar eða ákvarðanir um álagningu gjalda. Nefndin mun fjalla um það milli 2. og 3. umr.

Ég ítreka að meginþema frumvarpsins er aukin aðkoma íbúa að rekstri sveitarfélaga og að reyna að hafa áhrif á ákvarðanir sveitarstjórnarmanna við að reka sveitarfélögin, þar á meðal skuldbindingar þeirra og stærri ákvarðanir. Um þetta er líka kosið á fjögurra ára fresti, þ.e. þegar þeir sem bjóða sig fram til að reka sveitarfélögin, hvort sem það eru framboðslistar eða einstaklingar, leggja fram þá áætlun sem þeir hafa fram að færa um rekstur sveitarfélagsins í tiltekinn tíma. Um þetta er eiginlega kosið á fjögurra ára fresti en í frumvarpinu er opnað á mun fleiri möguleika íbúanna (Forseti hringir.) að þessu þar á milli og ég held að það sé vel.