139. löggjafarþing — 165. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[00:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði mér ekki að halda nema eina ræðu um þetta mál í kvöld en ég sé mig knúinn til að taka þátt í þeim umræðum sem hafa átt sér stað á milli hv. þingmanna og hæstv. ráðherra.

Ég er algjörlega sammála hæstv. ráðherra um þessi mál. Það er að mínu viti, og er ég búinn að starfa töluvert við sveitarstjórnarmál, algjörlega óframkvæmanlegt að ætla að láta kjósa um fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna við útsvarshækkanir eins og hv. þm. Lúðvík Geirsson benti á og álögur sveitarfélaganna til að fylgja eftir sínum lögbundnu skyldum. Þetta er að mínu viti ekki skynsamleg leið. Þá held ég að þetta missi marks. Við hæstv. ráðherra deilum ekkert um það að með þessu frumvarpi er verið að auka rétt íbúanna og lýðræðið í sveitarfélögunum, það er eitt af markmiðum frumvarpsins, en að skrumskæla svona það sem hæstv. ráðherra leggur til finnst mér algjörlega óviðunandi. Væri þá ekki eðlilegt, hæstv. ráðherra, að kjósa til að mynda um skattahækkanir hjá ríkisstjórninni? Er það ekki sama lýðræðið hjá íbúunum á landsvísu og íbúunum í sveitarfélögunum hvort sem menn kjósa um útsvarið eða skattprósentuna? Ég er algjörlega ósammála þessum þætti.

Ég bendi hæstv. ráðherra á nokkuð sem ég hef sagt áður í þessum ræðustól, ég teldi það vera til athugunar og hvet hæstv. ráðherra til að skoða það þegar farið er að útfæra nánar fjármálareglurnar en ítreka þó að það verður að gera það í sátt við sveitarfélögin. Ég treysti hæstv. ráðherra til að gera það. Ef menn fara í stórar fjárfestingar í sveitarfélaginu, til að mynda að byggja íþróttahús eða sundlaug, er spurningin hvort forsvarsmenn sveitarfélaganna þurfi þá að leggja fram um það tillögu og fá til þess leyfi hjá íbúunum þegar verið er að skuldsetja sveitarfélögin til margra ára. Sveitarstjórnarmenn koma ekki alltaf þar að með skýrum hætti.

Í því sveitarfélagi sem ég þekki best til var tekin ákvörðun um að byggja íþróttahús. Þá sögðum við sem störfuðum í sveitarstjórninni og gerðum öllum grein fyrir því í kosningabaráttu okkar að sú ákvörðun þýddi að á næstu árum yrði ekki hægt að gera neitt annað. Skólarnir yrðu ekki stækkaðir, ekki leikskólarnir, þetta væri það sem við legðum í, annað væri óraunhæft.

Aðrir lögðu fram frekari tillögur en við vorum kosnir. Við komum heiðarlega fram en það er því miður ekki alltaf tilfellið. Það er gríðarlega mikilvægt út af þessari umræðu sem við sjáum í einstaka sveitarfélögum. Það eru kannski 2–3 þús. íbúar í sveitarfélagi en einungis sjö einstaklingar sitja í sveitarstjórn og jafnvel bara fjórir í meiri hluta sem tekur ákvarðanir fyrir alla íbúana. Það er spurning hvort menn gætu í samvinnu við sveitarfélögin þróað þetta áfram í þá veru, eins og ég hef látið liggja að, að þegar farið væri í miklar framkvæmdir sem hefðu einhverja prósentu af heildartekjum sveitarfélagsins yrðu forsvarsmenn sveitarfélagsins að bera það undir íbúana. Það teldi ég betri nálgun til að styrkja íbúalýðræðið en að fara þessa arfa- — ég ætla ekki að nota það orð, fara þá leið að kjósa um tekjustofna sveitarfélaganna eða hvort íbúarnir geti safnað undirskriftum um það að ráða æskulýðsfulltrúa eða tómstundafulltrúa, íþróttafulltrúa. Með allri virðingu fyrir þeim stöðum verða þeir fulltrúar sem eru að stýra sveitarfélögunum á hverjum tíma að standa undir og axla þá ábyrgð. Það er akkúrat það sem maður sér fyrir sér með hertum fjármálareglum og líka umgjörð í kringum sveitarfélögin, þá verður það gert þannig og því segi ég fyrir mína parta að það er nauðsynlegt að fara með þetta ákvæði lengra þannig að það sé skýrt og skilmerkilegt um hvað er hægt að kjósa til að það sé hægt að kalla það lýðræði. Ef við teygjum okkur of langt og förum að kjósa um fjárhagsleg málefni með beinum hætti eins og hæstv. ráðherra var að tala um áðan er ég hræddur um að við séum að eyðileggja þetta ákvæði í lögunum. Ég bendi hæstv. ráðherra á að skoða frekar að fara aðrar leiðir í því að leyfa íbúunum að kjósa hugsanlega um einhverjar dýrar framkvæmdir því að það geta líka komið kröfur og við verðum líka að horfa á þetta úr hinni áttinni.

Ég hef aldrei skilið þá sveitarstjórnarmenn sem hafa gert athugasemdir við þetta. Ég lít svo á að þetta verndi sveitarstjórnarmennina gegn óraunhæfum kröfum. Þess vegna er ég mjög hlynntur því að menn setji fjármálareglur. Sú stemning getur komið upp í einhverju sveitarfélagi að fara í einhverjar framkvæmdir sem eru algjörlega óraunhæfar. Það hefur því miður allt of oft gerst og af því þurfum við að læra.

Ég vona að ég hafi komið skoðun minni alveg skýrt á framfæri hvað þetta mál varðar og vænti þess að það verði náið og gott samstarf áfram í hv. samgöngunefnd um þessi mál hér eftir sem hingað til og að við klárum að setja þessi lög eins og stefnt er að fyrir þinglok sem væntanlega verða á morgun.