139. löggjafarþing — 165. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[00:23]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu eiga öll lög að vera háð endurskoðun og sem betur fer er ekki bannað með lögum að breyta lögum. Ef reynslan sýnir okkur fram á að einhverju er ábótavant í þessari lagasmíð er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að breytingar verði gerðar á lögunum.

Það sem ég er einfaldlega að segja er þetta: Ef tiltekið hlutfall, hvort sem er í sveitarfélagi eða hjá þjóðinni allri, óskar eftir að virkja lýðræðið og freista þess að ná fram meiri hluta fyrir einhverju tilteknu máli á ekki að setja hömlur á það. Menn eiga ekki að vera svona hræddir við fólkið og þegar allt kemur til alls er rétturinn hjá því. Við erum bara milligöngumenn og við höfum ekki rétt til að vera einhverjir skömmtunarstjórar á frelsi.