Sveitarstjórnarlög

Laugardaginn 17. september 2011, kl. 12:35:32 (0)


139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[12:35]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér á að fara að greiða atkvæði eftir 2. umr. um gríðarlega mikilvægt mál sem hefur ekki fengið nærri því nægilega umfjöllun í þingsal. Það var rætt hér lítillega í gærkvöldi þegar fjölmargir þingmenn voru farnir heim og þar á meðal ég, enda fjölskyldumaður, og ég tel ekki að þingið eigi að starfa í skjóli myrkurs.

Það eru þrjár greinar í þessu frumvarpi sem ég geri sérstaklega efnislegar athugasemdir við og mun ræða það í 3. umr. Það er 11. gr. um fjölda sveitarstjórnarmanna en Ísland býr við algjöra sérstöðu miðað við öll ríki í Norður- og Vestur-Evrópu hvað varðar fámenni í sveitarstjórnum. Það er 64. gr um skuldaþakið sem er ávísun á stórfellda einkavæðingu á almannaþjónustu ef það nær fram að ganga. Það er 107. og 108. gr. um almennar atkvæðagreiðslur sem er allt of þröngur stakkur sniðinn og miðað við nýjustu breytingartillögur er enn þá verið að klípa meira af valdi íbúanna til að hafa áhrif á gang mála í sínu sveitarfélagi.