Gjaldeyrismál og tollalög

Laugardaginn 17. september 2011, kl. 13:17:40 (0)


139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[13:17]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Með þeim breytingum sem lagðar verða fram á frumvarpinu er verulega dregið úr lögbundinni tímalengd þeirra hafta sem við ræðum en engu að síður er það sjónarmið okkar í Sjálfstæðisflokknum að stjórnvöld hafi ekki fram til þessa sýnt málinu nægilega mikla alvöru. Þeir sem ábyrgð bera á framkvæmd haftanna og afléttingu þeirra hafa ekki staðið sig í stykkinu við að flýta afnámi. Það er mjög til bóta að menn lögfesti ekki höftin núna til ársins 2016 þar sem það eru kolröng skilaboð.

Ég þakka þó fyrir þær tilslakanir sem gerðar hafa verið, m.a. um að koma á fót þverpólitískum nefndum til að fara yfir helstu forsendur þess að hraða afléttingu haftanna. Það er gríðarlega mikið hagsmunamál bæði fyrir heimili og atvinnulíf í landinu. Þess vegna ber að fagna því en málið er hins vegar vont í heild sinni.