Gjaldeyrismál og tollalög

Laugardaginn 17. september 2011, kl. 13:25:06 (0)


139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[13:25]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Til að unnt sé að afnema gjaldeyrishöft eins og þau sem við búum við núna þarf fernt: efnahagslegan stöðugleika, öruggt ytra umhverfi, stöðugt fjármálakerfi og skýra framtíðarsýn í gengis- og peningamálum. Fyrsti þátturinn er fyrir hendi að áliti stjórnarandstöðunnar og ég þakka fyrir það traust, eins og hæstv. fjármálaráðherra gerði áðan, að stjórnarandstaðan skuli líta svo á að efnahagslegar forsendur séu fyrir afnámi gjaldeyrishafta. Hinir þrír þættirnir eru ekki í hendi. Hið alþjóðlega ástand er óöruggt, fjármálakerfið hefur ekki lokið að vinna úr afleiðingum hrunsins og við höfum ekki markað skýra framtíðarsýn í gengis- og peningamálum. Nú munum við fara í skipulögð verkefni á því sviði til að ná þeim árangri hratt og örugglega, þ.e. byggja upp innstæðutryggingakerfi og gera fjármálakerfinu betur mögulegt að takast á við afnám hafta.

Ég fagna því að allir flokkar vilja nú koma að því verki að ræða með opnum huga gengis- og peningamálastefnu til lengri tíma (Forseti hringir.) því að stór hluti vandamálsins við gjaldeyrishöft á Íslandi í dag er sá að of margir flokkar hafa of lengi komist upp með að skila auðu (Forseti hringir.) í umræðum um gengis- og peningamálastefnu til lengri tíma.