Fullgilding Árósasamningsins

Laugardaginn 17. september 2011, kl. 13:52:42 (0)


139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[13:52]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér eru vissulega tímamót og mikilvægur áfangasigur sem lengi hefur verið beðið eftir bæði í umhverfismálum og ekki síður í lýðræðismálum. Gagnrýnt hefur verið að svokallað actio popularis-ákvæði hafi verið tekið út og ég tek undir það. Það var mér mjög þungbært og mér þótti það afar sárt en við stóðum frammi fyrir því vali að hætta annaðhvort á að þetta mál færi ekki í gegn og mundi velkjast áfram óljóst inn í veturinn eða tryggja framgöngu málsins og allar þær úrbætur sem þar eru. Ég treysti á það að í náinni framtíð verði vilji fyrir því í þessum þingsal að actio popularis-ákvæðið verði sett inn í íslenska löggjöf og jafnvel í enn víðtækari skilningi en var upphaflega planað. Ég fagna mjög þessum mikilvæga áfangasigri fyrir umhverfismál í landinu og fyrir lýðræði í landinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)