Sveitarstjórnarlög

Laugardaginn 17. september 2011, kl. 16:34:03 (0)


139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég flyt framhaldsnefndarálit samgöngunefndar vegna frumvarps til nýrra sveitarstjórnarlaga. Nefndin fundaði í morgun um málið ásamt fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og innanríkisráðuneytisins um ýmis álitamál sem komið höfðu upp í 2. umr.

Í fyrsta lagi var fjallað um 2. gr. frumvarpsins sem lýtur að hlutverki ráðherra gagnvart sveitarfélögum og komið til móts við þær athugasemdir sem hafa borist þar um eins og sjá má af sérstöku skjali með breytingartillögum sem fylgir nefndarálitinu.

Í umfjöllun nefndarinnar fyrir 2. umr. ræddi nefndin tímabil stöðugleika íbúafjölda samkvæmt 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins sem var rætt um í morgun. Þrátt fyrir að nefndin teldi þá ekki nauðsynlegt að gera breytingar á frumvarpinu hvað þetta varðar var málefnið rætt að nýju eftir 2. umr. Þar kom það sjónarmið skýrt fram að tímabil stöðugleika íbúafjölda sveitarfélaga vegna skyldu til fækkunar eða fjölgunar sveitarstjórnarmanna væri of langt samkvæmt frumvarpsgreininni. Nefndin féllst því á framangreind rök og gerði þá tillögu til breytingar að tímabil stöðugleika væri fjögur ár í stað átta. Af því tilefni benti nefndin á að slík breyting muni ekki hafa í för með sér að skylda samkvæmt 2. mgr. verði virk gagnvart sveitarfélögum fyrr en árið 2018.

Í erindi sínu til nefndarinnar setti Samband íslenskra sveitarfélaga fram þá hugmynd að nefndin legði til breytingu á 58. gr. frumvarpsins. Nefndin féllst á athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga og leggur fram þær breytingar sem sjá má á breytingartillöguskjali.

Í erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga komu fram nokkrar athugasemdir við 108. gr. frumvarpsins. Þannig kom fram sú skoðun þess að frumvarpsgreinin innihéldi mjög litlar takmarkanir á því um hvaða mál íbúar gætu krafist atkvæðagreiðslu. Ekki væri nægilega skýrt hvort takmarkanir hennar þýddu t.d. að sveitarstjórn gæti hafnað því að halda atkvæðagreiðslu um skatta- eða gjaldskrárákvarðanir, með vísan til skyldu sveitarfélaga til að halda sig innan fjárhagsviðmiða. Var það mat sambandsins að greinin þyrfti að vera fortakslaus um að ekki væri hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um ákvörðun lögbundinna tekjustofna sveitarfélaga. Þá taldi sambandið að heppilegast væri ef sveitarfélögum yrði heimilað að setja sér nánari reglur um það hve hátt hlutfall íbúa þyrfti til að krefjast borgarafunda og almennra atkvæðagreiðslna. Að lokum hvatti sambandið nefndina til að skoða hvort ekki væri rétt að hækka hlutfallstölur í 1. mgr. 108. gr. og veita sveitarstjórnum svigrúm til að setja nánari reglur um fjölda íbúa sem þarf til þess að krefjast borgarafunda og atkvæðagreiðslna um einstök málefni.

Nefndin leggur til breytingar á 108. gr. frumvarpsins þannig að skýrar verði greint á milli borgarafunda og íbúakosninga og um hvaða málefni er ekki heimilt að krefjast kosningar. Byggist tillaga nefndarinnar á þeirri hugsun að ósamræmi sé á milli þess að krefjast aukinna raunverulegra fjárhagslegra fyrirsjáanlegra útgjalda af hálfu sveitarstjórna og að gera þeim á sama tíma mögulega erfiðara um vik standi vilji borgaranna gegn slíkri ráðdeild.

Nefndin telur sérstakt tilefni til að benda á að þrátt fyrir að ákvæði frumvarpsgreinarinnar kveði á um skyldu sveitarstjórna til viðbragða að því tilskildu að ákveðinn hluti íbúa sveitarfélags krefjist slíks er ekki hægt að gagnálykta frá frumvarpsgreininni á þann hátt að slíkt sé sveitarstjórnum ekki að öðru leyti heimilt. Þannig kemur ekkert í veg fyrir að sveitarstjórn bregðist við óskum fárra íbúa krefjist þeir borgarafundar eða atkvæðagreiðslu um einstök mál. Þá kemur ekkert í veg fyrir að sveitarstjórn haldi íbúafund eða atkvæðagreiðslu meðal íbúa um einstök mál að eigin frumkvæði.

Á fundi nefndarinnar fór Samband íslenskra sveitarfélaga þess á leit við nefndina að hún tæki afstöðu til ábendinga í umsögn Reykjavíkurborgar um bagalegt misræmi milli almennra athugasemda við XI. kafla frumvarpsins og skýringa við 109. gr. frumvarpsins og varð nefndin við þeim ábendingum.

Á fundi nefndarinnar kom fram sú athugasemd við 115. gr. frumvarpsins, með áorðnum breytingum, að ekki væri nægilega tryggt að minni háttar annmarkar á samningum eða málsmeðferð sveitarstjórnar við samþykkt þeirra leiði ekki til ógildingar. Var bent á að orðalag frumvarpsgreinarinnar skapaði hættu á að traust í garð sveitarfélaga sem samningsaðila mundi rýrna.

Nefndin fellst á framangreindar röksemdir og leggur til þá breytingu á 2. mgr. 115. gr. frumvarpsins eins og fram kemur í skjali meðfylgjandi nefndarálitinu.

Eins og fram kemur í áliti nefndarinnar fyrir 2. umr. lagði nefndin fram tillögu til breytingar á 129. gr. frumvarpsins. Við nánari skoðun kom í ljós að nauðsynlegt væri að gera breytingar á frumvarpsgreininni í nafni skýrleika. Af þeim sökum kallaði nefndin framangreinda breytingartillögu aftur en flytur hana nú á ný með breyttu orðalagi.

Nefndin fjallaði um ýmsar aðrar smávægilegri ábendingar sem henni bárust á milli umræðna og á meðan umræðum stóð í gær og fram í nóttina og tók afstöðu til þeirra eins og fram kemur í breytingartillöguskjali sem fylgir nefndarálitinu. Flestar þeirra eru með smærra móti en stærstu breytingarnar eru við 108. gr. eins og kom fram áðan.

Í erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga á fundi nefndarinnar í morgun og ábendingu sem nefndinni hafði borist áður frá sambandinu kom fram gagnrýni á ákvæði til bráðabirgða samkvæmt b-lið 39. töluliðar breytingartillögu á þskj. 1875. Þannig kom fram það álit sambandsins að algerlega væri óraunhæft að veita sveitarstjórnum aðeins þriggja mánaða frest til að ljúka áætlanagerð samkvæmt ákvæðinu. Eðlilegra verklag væri að tengja hana við gerð fjárhagsáætlunar 2012 og miða við að áætlunin liggi fyrir 15. desember 2012. Ljóst mætti vera að sveitarstjórnir sem uppfylla ekki viðmið samkvæmt 64. gr. muni meðal annars þurfa að fara vandlega yfir þær kröfur sem settar verða í reglugerð samkvæmt lokamálsgrein 64. gr. frumvarpsins og eftir atvikum hafa samráð við eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga um raunhæf markmið.

Nefndin fellst á framangreind rök sambandsins. Af þeim sökum kallaði nefndin aftur b-lið 39. töluliðar breytingartillögunnar og leggur tillöguna nú fram að nýju breytta þannig að komið sé til móts við framangreind sjónarmið í öllum atriðum.

Sú ábending barst einnig til nefndarinnar að rétt væri að nefndin tæki til skoðunar að útvíkka undanþágu ákvæðis til bráðabirgða samkvæmt c-lið 39. töluliðar breytingartillögu á þskj. 1875. Þannig væri ekki rétt að einskorða hana við orkufyrirtæki, m.a. í ljósi krafna um aðgreiningu raforkuframleiðslu frá almennri veitustarfsemi orkufyrirtækja.

Nefndin fellst á framangreind rök. Af þeim sökum kallaði nefndin aftur c-lið 39. töluliðar breytingartillögu framangreinds þingskjals og leggur fram tillöguna að nýju breytta þannig að komið sé til móts við framangreind sjónarmið.

Nefndinni barst sömuleiðis sú ábending að ýmis ákvæði frumvarpsins kölluðu á breytingar á samþykktum sveitarfélaga.

Að mati nefndarinnar er eðlilegt að gefa sveitarstjórnum hæfilegt svigrúm til að vinna að endurskoðun samþykkta um stjórn og fundarsköp. Leggur nefndin því til að bætt verði við nýju ákvæði til bráðabirgða sem veitir frest til 1. janúar 2013 til að ljúka því verkefni. Þá munu gildandi samþykktir, að því leyti sem þær eru í ósamræmi við sveitarstjórnarlög, víkja fyrir ákvæðum þeirra, t.d. varðandi reglur um nefndakjör.

Nefndin leggur að lokum til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Árni Johnsen og Guðmundur Steingrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu þessa máls en undir nefndarálitið rita eftirtaldir hv. þingmenn: Björn Valur Gíslason, Lúðvík Geirsson, Ólína Þorvarðardóttir, Árni Þór Sigurðsson, Ásbjörn Óttarsson, Róbert Marshall og Mörður Árnason.

Eins og fram kemur í þessari upptalningu er nefndin samstiga og sammála um allar þær breytingartillögur sem lagðar eru til varðandi málið. Það lýsir þeirri góðu vinnu sem farið hefur fram í nefndinni alla tíð frá því að nefndin tók þetta mál til umræðu fyrst á síðasta vetri og skilar því nú í því formi sem það er í dag.