Sveitarstjórnarlög

Laugardaginn 17. september 2011, kl. 17:09:23 (0)


139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[17:09]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég gerði bara að umtalsefni þær greinar sem ég hef mestar athugasemdir við og lýsti því yfir strax í upphafi að það væri margt mjög gott í þessu frumvarpi og brýnt að breyta sveitarstjórnarlögum í þá veru sem verið er að gera í heildina í frumvarpinu.

Varðandi þessar greinar og sérstaklega báðar lýðræðisgreinarnar, þ.e. fjölgun sveitarstjórnarmanna og rétt íbúa til íbúakosninga, þá fór frumvarp okkar Hreyfingarinnar til samgöngunefndar á þinginu í fyrra og fékk ágætisumræðu í nefnd þar sem nefndarmenn voru mjög áhugasamir um framgang þess og var það sent til ríkisstjórnarinnar til meðferðar með jákvæðri umsögn. En það varð ekkert úr þeim upplýsingum sem koma fram í því frumvarpi og ég lýsi bara eftir því hvernig stendur á því að niðurstaðan er sú að Íslendingar munu áfram búa við viðlíka lýðræðishalla og kemur fram í 11. gr. sem er algerlega á skjön við það sem gerist í öllum öðrum Evrópuríkjum. Það er bara ekki ásættanleg niðurstaða í nútímalýðræðisríki svo að ég tali ekki um að samgöngunefnd og innanríkisráðuneytið höfði þær upplýsingar í höndunum sem Hreyfingin aflaði sér þegar hún var að setja frumvarp sitt á dagskrá á síðasta þingi.

Hvað varðar aðkomu íbúa að stjórn sveitarfélagsins, eins og kemur fram í 107. og 108. gr., þá er útfærslan á þeirri aðkomu slík að einfaldlega er um einhvers konar gluggaskreytingu að ræða og mætti jafnvel að mínu viti bara tala um það sem spaug ef ég héldi ekki að þingmönnum væri full alvara með þetta mál. Þetta eru því miður nánast ónýt ákvæði þó að þau líti út fyrir að vera skref í rétta átt. Þau brjóta að vísu upp á þeirri nýju hugsun sem kemur þarna fram og hefur ekki verið í lögum áður og vonandi tekst að vinna áfram með en eins og þau líta út í dag er ekkert varið í þau.