Fjáraukalög 2010

Þriðjudaginn 19. október 2010, kl. 16:01:12 (0)


139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[16:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ný byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að hann gerði það sem margir aðrir ráðherrar gera ekki, hann svaraði öllum þeim spurningum sem beint var til hans í umræðunni, það er þakkarvert.

Hann talar alltaf um arfinn sem menn fá en vil ég bara minna hann á að það er hæstv. fjármálaráðherra sem tekur ákvörðun um að kaupa þennan sendiherrabústað upp á 913 milljónir, það gerir það enginn annar. Það var meira að segja sett inn í fjáraukalögin eftir að búið var að undirrita samninginn þannig að það fer ekkert á milli mála. Þó að Alþingi hefði hugmyndir um að gera annað yrði að selja bústaðinn aftur því að það er búið að kaupa hann, það er aldrei að vita nema það verði gert. Ég treysti mikið á skynsemi alþingismanna.

Hæstv. ráðherra upplýsti okkur um að tekjuhliðin í september væri ekki í sömu átt og í ágúst, eins og ég hafði áhyggjur af, ég fagna því. Mig langar hins vegar að velta því upp við hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki haft efasemdir um að fara í allar þessar skattahækkanir á einstaklinga í ljósi skuldavanda heimilanna, minni ráðstöfunartekna, plús það að í fjárlögunum fyrir 2010 er gert ráð fyrr meira atvinnuleysi en raunin er, sem er mikið fagnaðarefni. Það staðfestir hins vegar að færri gjaldendur greiða gjöld núna í fyrsta sinn í mjög langan tíma en við höfum verið að flytja út atvinnuleysi. Fólk fer úr landi. Síðan kemur hæstv. ráðherra og segir að búið sé að setja hellingspening í skatteftirlit og að breyta eigi tölvukerfunum vegna skattkerfisbreytinganna o.s.frv. Efast hæstv. ráðherra ekkert um að niðurstöðurnar út úr þessum skattahækkunum verði í raun neikvæðar? Ef við hefðum haft meiri tekjur á milli handanna væri skuldavandi heimilanna ekki jafnmikill, þá gæti fólk frekar séð sér farborða, plús það að þá gæti fólk farið að versla og skapa hagvöxt og atvinnu fyrir aðra.