Mannvirki

Miðvikudaginn 20. október 2010, kl. 17:44:08 (0)


139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

mannvirki.

78. mál
[17:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Frumvörpin sem hér eru til umræðu voru einnig rædd á síðasta þingi og komu þá til meðferðar í umhverfisnefnd. Ekki gafst reyndar mikill tími í störfum nefndarinnar til að fara ofan í einstök atriði þessara frumvarpa og þess vegna var það sameiginleg niðurstaða nefndarinnar að ljúka ekki afgreiðslu þeirra á síðasta þingi með sama hætti og gengið var frá nýjum skipulagslögum nú í september. Jafnframt lá ljóst fyrir að þessi mál yrðu aftur tekin upp þegar þing kæmi saman að nýju og fengju þá þá umræðu á vettvangi umhverfisnefndar sem nauðsynleg er.

Það er auðvitað rétt sem kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra að hér er að stórum hluta til um að ræða tæknileg málefni sem þarf að taka afstöðu til. Það liggur fyrir að það eru álitamál og skiptar skoðanir um ákveðna þætti í þeim efnum og umhverfisnefnd fékk í störfum sínum ákveðin sýnishorn af mismunandi sjónarmiðum, m.a. hvað varðar þá þætti sem hv. þm. Logi Már Einarsson drap á í ræðu sinni hér áðan, þannig að það eru atriði sem óhjákvæmilega hljóta að koma til umfjöllunar aftur og fá betri yfirlegu og yfirferð á vettvangi nefndarinnar.

Það má auðvitað lengi velta vöngum yfir þeirri heildarstefnumörkun sem þessi frumvarpagerð byggir á, þ.e. um ákveðinn aðskilnað milli skipulagsmála og byggingarmála. Ég held að í sjálfu sér sé ekki óskynsamlegt að fara þá leið sem hér hefur verið farin og reyndar verið samstaða um í nokkur ár að fara og ráðherrar úr fleiri en einum flokki og fleiri en tveimur hafa staðið að þeirri vinnu sem átt hefur sér stað, alla vega í fjögur, fimm ár ef ekki lengur. Engu að síður er ljóst að þessi mál hanga saman með ýmsum hætti þannig að auðvitað þarf að taka tillit til mismunandi þátta í þessu.

Ég held að einstök ákvæði frumvarpsins gefi ekki tilefni fyrir mig til að fjalla nákvæmlega um þau hér, en það er eitt atriði sem ég vildi þó nefna á þessu stigi í umræðunni og það er auðvitað það að þegar þetta frumvarp er lagt fram nú að nýju gerir fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins ráð fyrir að samþykkt þess muni leiða til um 100 millj. kr. kostnaðaraukningar fyrir ríkissjóð. Það er reyndar lægri upphæð heldur en í fyrri áformum, en engu að síður er um að ræða útgjaldaaukningu á tímum þegar við erum að takast á við mjög mikinn niðurskurð á mörgum sviðum. Þetta vekur auðvitað upp spurningar um það hvaða leiðir er hægt að fara í þessu.

Það er ljóst að á þessum tímum er erfitt að samþykkja útgjaldaaukningu. Jafnvel þó að málaflokkurinn sé mikilvægur og verður þess að honum sé sinnt vel og betur heldur en gert hefur verið, þá er auðvitað erfitt að taka ákvarðanir af þessu tagi þegar verkefnið sem við okkur þingmönnum blasir er fyrst og fremst mjög mikill niðurskurður á mörgum sviðum og þörfin á niðurskurði kannski jafnvel enn þá meiri heldur en fjárlagafrumvarp hæstv. ríkisstjórnar gerir ráð fyrir.

Auðvitað má lengi deila um það hvar á að skera niður og ég ætla ekki að fara út í þá umræðu, en ég vildi bara nefna þetta vegna þess að mér finnst nauðsynlegt að þetta atriði verði líka tekið til umræðu í umhverfisnefnd þegar málið kemur þangað, auk þess sem við fjöllum um þá þætti sem við getum kallað tæknilega og varða einstök ákvæði frumvarpsins.