Mannvirki

Miðvikudaginn 20. október 2010, kl. 17:56:08 (0)


139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

mannvirki.

78. mál
[17:56]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir góða yfirferð.

Varðandi það sem hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi og hv. þm. Mörður Árnason fylgdi hér eftir varðandi Byggingarstofnun, sem er sannarlega ný stofnun sem er fyrst og fremst byggð á grunni Brunamálastofnunar, þá er uppbygging og umbúnaður þeirrar nýju stofnunar ekki eins bratt og fyrirhugað var í þeim frumvörpum sem áður hefur verið mælt fyrir af held ég umhverfisráðherrum allra flokka. Ég held af því tilefni að tími sé kominn til að loka þeim hring. Við vorum afar meðvituð um það, bæði í umhverfisráðuneytinu og í samskiptum okkar við fjármálaráðuneytið, að það er allsendis óboðlegt í þeim þrengingum sem samfélagið býr nú við að fara eins bratt í uppbyggingu á nýrri stofnun og fyrirhugað hafði verið, þannig að við förum hægt í uppbyggingu nýrrar stofnunar, gerum það eins varfærnislega og nokkur er kostur, en umbúnaðurinn verður þó nægilega sterkur til að sú stofnun geti risið þegar samfélagið er komið aftur á kjöl.