Sjúkratryggingar

Þriðjudaginn 16. nóvember 2010, kl. 21:07:10 (0)


139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[21:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi af þessu tilefni spyrja hæstv. ráðherra um áherslur hans hvað þetta varðar. Hér er gert ráð fyrir því að fresta gildistökunni um hvorki meira né minna en þrjú ár. Við störfuðum saman í ríkisstjórn sem var með ákveðnar áherslur og mikill samhljómur var á milli flokkanna í þeim málaflokki, þ.e. Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Í stuttu máli vorum við sammála um að leggja ætti aukna áherslu á stefnumótun sem svo sannarlega vantaði í heilbrigðisráðuneytið en setja að norrænni fyrirmynd upp Sjúkratryggingar Íslands þar sem sett var á einn stað sérfræðiþekking og samningar við heilbrigðisstofnanir. Samningarnir voru áður hjá sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar í heilbrigðisráðuneytinu og sömuleiðis hjá samninganefnd heilbrigðisráðherra en hugmyndin var sú með stofnun Sjúkratrygginga Íslands að þeir tækju smátt og smátt þennan þátt yfir og legðu sérstaka áherslu á kostnaðargreiningu og annað slíkt.

Af hverju kostnaðargreiningu? Það er til þess, nákvæmlega eins og núna, þegar við erum að reyna að leita allra leiða til að halda uppi þjónustu með sem hagkvæmustum hætti, að við vitum hvar er hagkvæmast fyrir okkur að nýta skattpeningana — hvar fáum við mesta þjónustu?

Það liggur fyrir og er öllum ljóst sem fylgst hafa með umræðum um heilbrigðismál í tengslum við þessi fjárlög að undirbúningurinn fyrir þessi fjárlög hefur verið í lamasessi. Það er alveg ljóst að þegar menn sömdu fjárlög var það ekki í neinni samvinnu eða samráði við aðila og því síður voru hlutir kostnaðargreindir og tvö síðustu ár hafa ekkert verið nýtt í undirbúning hvað það varðar.

Spurning mín er því þessi og hún skiptir máli: Hverjar eru áherslur hæstv. ráðherra hvað varðar Sjúkratryggingar Íslands? Vill hann að áfram verði stefnt að þeim markmiðum sem var lagt upp með á sínum tíma, með (Forseti hringir.) sjúkratryggingar, eða er hann að boða algjöra stefnubreytingu?