Sjúkratryggingar

Þriðjudaginn 16. nóvember 2010, kl. 21:11:18 (0)


139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[21:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef mjög miklar áhyggjur eftir að hafa hlustað á þetta stutta andsvar hæstv. ráðherra, og ég þakka honum fyrir hreinskilnina. Hér komu fram hugmyndir um að sameina Tryggingastofnun og Sjúkratryggingar Íslands sem er án nokkurs vafa stórt skref aftur á bak, jafnstórt skref aftur á bak og að sameina ráðuneytin. Það var þannig að við litum sérstaklega til vina okkar í Svíþjóð, skoðuðum hvernig þeir hefðu farið að, bæði til að læra af mistökum þeirra og líka af því sem gengið hefði vel. Þar eru þeir með sambærilegar stofnanir sem kostnaðargreina og eru það tæki sem löggjafinn notar til að vinna fjárlagagerðina betur. Þetta snýst ekki bara um samkeppni, alla jafna gilda önnur lögmál um heilbrigðisþjónustu en um hefðbundna markaði. Menn hafa hins vegar farið miklu dýpra í það að semja um einstaka læknisverk á grundvelli kostnaðargreiningar við heilbrigðisstofnanir.

Ég veit að eftir að sú ríkisstjórn sem við studdum báðir fór frá hafa þær áherslur breyst. Eina stofnunin sem hefur verið með kostnaðargreiningu í íslenskri heilbrigðisþjónustu er Landspítalinn — sem betur, enda sjáum við árangurinn þar í rekstrinum varðandi fagleg vinnubrögð. Það er eina stofnunin sem hefur verið að vinna að því.

Það að sameina Sjúkratryggingar Íslands og Tryggingastofnun bara eitt og sér en hafa ekki aðra sýn en hér kemur fram hvað varðar fjárlagavinnu — því að í rauninni gengur þetta út á fjárlagavinnu beint og óbeint, gengur bara út á það eitt að reyna að fá sem mest fyrir þá fjármuni sem skattgreiðendur hafa — veldur mér áhyggjum. Ég hvet hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) til að hugsa þetta mál betur.