Sjúkratryggingar

Þriðjudaginn 16. nóvember 2010, kl. 21:13:29 (0)


139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[21:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sá sem hér stendur var einmitt að lýsa því yfir að hann ætlaði að skoða málið betur þannig að við getum verið sammála um að ástæða sé til þess. Ég var ekki með yfirlýsingar um að það ætti að sameina Sjúkratryggingar Íslands og Tryggingastofnun ríkisins en aftur á móti tel ég ástæðu til að vega og meta aftur hvort við náum ekki þeim markmiðum sem sett voru í upphafi með öðrum hætti, eins og reynslan hefur sýnt að gekk eftir.

Það er forvitnilegt í sjálfu sér að þetta var sett af stað árið 2007. Þegar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hætti í ríkisstjórn var framvæmdin ekki komið mjög langt á veg. Það sem lagt var upp með hefur ekki gengið eftir hverju sem um er að kenna, ég ætla ekki að fara að útlista það hér. Það þýðir að meta þarf þetta að nýju, hvernig við eigum að fara út í þessa vinnu.

Á Landspítalanum hefur kostnaðargreiningin gengið eftir, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, og þarf að vinnast betur og víðar. En það þýðir ekki að hafa þurfi heila stofnun sem heldur utan um þetta, ekki nauðsynlega. Það getur vel verið að það sé réttasta og besta leiðin. Við þurfum að fara yfir þetta að nýju, endurmeta með tilliti til þeirra markmiða sem sett voru í upphafi, með tilliti til árangurs sem hefur náðst og í ljósi nýrra tækifæra sem fylgja sameiningu ráðuneytanna þar sem saman koma heilbrigðismálaráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið sem fara með þessa tvo málaflokka. Felast í því einhver ný tækifæri? Það er það sem við þurfum að líta til.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir að við þurfum að líta til Norðurlandanna og reynslunnar þaðan, um það hvernig þetta hefur gengið eftir þar, hvort menn hafi fylgt þessu eftir þar. Við skulum heldur ekki gleyma því að í því umhverfi sem við vorum árið 2007, með 80 milljarða í afgang á fjárlögum vegna bóluhagkerfisins á þeim tíma, yfir í það að vera hér með gríðarlegan halla, þá verðum við að meta hvað við ráðum við í sambandi við kostnað og hvert við ráðstöfum þeim peningum sem við höfum í heilbrigðisþjónustuna, hvort það er inn í stjórnkerfið (Forseti hringir.) eða út á viðkomandi stofnanir.