Sjúkratryggingar

Þriðjudaginn 16. nóvember 2010, kl. 21:27:58 (0)


139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[21:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei haldið því fram að lögmál markaðarins giltu í heilbrigðisþjónustunni. Ég held að þau geri það ekki, þar gilda allt aðrar forsendur. Við getum nýtt ákveðna kosti sem við notum í markaðskerfinu. Ég held að við þurfum að rífa okkur upp úr þessum andstæðum, einkarekstur — opinber rekstur. Kostnaðargreining snýst ekki um að færa hlutina til einkaaðila, það er ekki markmiðið. Ef hagkvæmara er að vera með þá hjá opinberum aðilum þá eru þeir færðir þangað.

Þar sem ég þekki best til, í Svíþjóð, t.d. hjá Karolinska sjúkrahúsinu byrjuðu menn að hafa þetta allt afkastatengt. Þá jukust afköstin upp úr öllu valdi en kostnaðurinn líka. Þá breyttu menn þessu þannig að nokkurn veginn helmingurinn af fjárframlögum til Karolinska eru föst framlög þar sem samið er um ákveðna hluti. Síðan er samið um afkastatengda hluti. Þetta eru heljarinnar samningaviðræður. Það er Íslendingur sem stýrir þessum stærsta spítala Norðurlandanna. Hann semur við sjúkratryggingadeildina í léni sínu. Ef það var hins vegar hagkvæmt fyrir hann, þ.e. forstjóra spítalans, þá samdi hann við aðra aðila um ákveðinn hluta aðgerðanna. Þetta er nokkuð sem hann fór yfir með okkur og þáverandi heilbrigðisnefnd. Menn þurfa að rífa sig upp úr því að halda að þetta snúist um að menn haldi annaðhvort með einkarekstri eða opinberum rekstri í heilbrigðisþjónustu á sama hátt og menn halda með Val eða KR. Þetta er ekki þannig.

Einn þriðji af heilbrigðisþjónustunni er einkarekinn á Íslandi og ég veit ekki betur en að menn sinni almennt bara mjög góðu starfi þar. Það má hins vegar semja öðruvísi við aðila í einkarekstri, það er mín skoðun. Að þessu þarf að vinna. Núna er fyrirkomulagið þannig ekkert ósvipað því í rauninni og ef samgönguráðherra mundi semja við alla verktaka um vegagerð og þeir sætu allir á móti honum og hann mundi semja um einingaverð á malbiki. (Forseti hringir.) Þar hvarflar ekki að nokkrum manni að fara út í slíkt og ég held að við eigum að hugsa þetta öðruvísi líka í heilbrigðiskerfinu.