Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 23. nóvember 2010, kl. 14:56:52 (0)


139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[14:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna mjög þessari áherslubreytingu á skattlagningu bifreiðanotkunar. Ég held að það sé mjög brýnt að við drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda af bílaflotanum og löngu orðið tímabært að við stígum skref eins og þessi í þeim efnum. Ég er þó með spurningar hvað þetta varðar sem eiginlega lúta að því hvort ekki væri rétt að stíga lengra. Þá er ég kannski einkum og sér í lagi að hugsa um niðurfellingu að nokkru leyti á vörugjöldum af t.d. metangasbifreiðum en þar er þak á niðurfellingunni 750 þús. kr. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig var sú tala fengin? Með því að hafa þá tölu hærri mundi það ekki hvetja til enn frekari notkunar á metangasi á Íslandi þar sem stærri bílar fengju meiri afslátt? Til dæmis ef við ykjum þetta þak um helming væru það ekki verulega góð kaup að kaupa þá frekar stóra metangasdrifna bifreið en ekki? Kemur til greina að hækka þetta þak þannig að við tökum inn stærri metangasdrifna bíla? Og þá er spurning í framhaldi af þessari: Af hverju var 750 þús. kr. þakið valið? Hvaða rök búa að baki því?