Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 23. nóvember 2010, kl. 15:09:32 (0)


139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[15:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það fer nú eftir því hvernig á það er litið að það sé ekkert ódýrt við það að eiga bíl. Auðvitað kostar það alltaf sitt. Má ég þá leyfa mér að minna á að það er náttúrlega ótrúleg breyting sem orðin er á fáum árum á akkúrat þessum þætti, hvað í boði eru núna miklu, miklu sparneytnari bílar sem skila sama afli og eru nákvæmlega jafngóðir til aksturs og aðrir og kannski helmingi eyðslufrekari bílar voru fyrir nokkrum árum. Ef við tökum bara eyðsluna á mörgum nýjustu og sparneytnustu dísilbílunum sem fara kannski niður í 5 lítra á hundraðið og berum þá saman við bíla af svipaðri stærð sem fyrir ekkert mörgum árum eyddu að meðaltali 10 lítrum. Það munar nú um minna en þetta, bæði í kostnaði og auðvitað í umhverfisáhrifum. Ætli það sé ekki þannig að það kosti um eða jafnvel innan við helming að fylla á metantank sama orkumagn og af bensíni? (GÞÞ: Það kostar að breyta bílnum.) Já, ef menn kaupa inn nýja metanbíla er þetta staðan (Forseti hringir.) að rekstrarkostnaður bílsins hvað eldsneyti varðar fer kannski niður um helming. Það eru möguleikar á því í dag að endurnýja bíla þannig að menn fái alveg jafngóðan bíl (Forseti hringir.) með helmingi minni eyðslu en áður var.